Einróma stuðningur er við það innan velferðarnefndar Alþingis að fæðingarorlof vegna andvana fæðinga verði lengt svo að foreldrar fái hvor um sig þriggja mánaða fæðingarorlof. Nú er það svo að foreldrar eiga sameiginlega rétt til þriggja mánaða orlofs ef andvanafæðing á sér stað, eftir 22 vikna meðgöngu. Ef fósturlát verður eftir 18 vikna meðgöngu eiga foreldrar samtals rétt á allt að tveggja mánaða orlofi samanlagt.
Fæðingarorlofssjóður greiddi foreldrum tæplega 9,7 milljónir í fæðingarorlof árið 2014 vegna fjórtán andvana fæðinga. Ef greiðslur hefðu miðast við fyrirkomulagið sem frumvarpið gerir ráð fyrir og foreldrarnir hefðu fullnýtt rétt sinn hefði fjárhæðin farið upp í tæplega 30 milljónir króna. Kostnaðarauki Fæðingarorlofssjóðs yrði því árlega rétt rúmlega 20 milljónir króna.
Frumvarp um breytingar á lögunum var lagt fram í haust í annað skipti, en Páll Valur Björnsson, þingmaður Bjartrar framtíðar, var fyrsti flutningsmaður þess. Auk hans voru flutningsmenn hinir fimm þingmenn Bjartrar framtíðar, Katrín Jakobsdóttir formaður VG, Helgi Hrafn Gunnarsson kafteinn Pírata og Össur Skarphéðinsson þingmaður Samfylkingarinnar.
Frumvarpið gerir ráð fyrir því að foreldrar barna sem fæðast andvana fái fullt fæðingarorlof, enda sé varla hægt að halda því fram að munur sé á því að eignast andvana barn eða að missa barn skömmu eftir fæðingu. Ef barn deyr skömmu eftir fæðingu fá foreldrar fullt fæðingarorlof, sem er þrír mánuðir hvort foreldri um sig og þrír mánuðir sem eru sameiginlegir. „Í báðum tilvikum þurfa foreldrarnir að takast á við sambærilegt sorgarferli, til viðbótar því álagi sem fylgir fæðingu barns. Hið andlega bataferli er af sama meiði hvort sem barnið lést í móðurkviði eða stuttu eftir fæðingu,“ segir í greinargerð með frumvarpi.
Velferðarnefnd fellst á það að svo mikill munur, sex mánuðir, sem er á rétti foreldra til fæðingarorlofs eftir því hvort barn deyr fyrir eða eftir fæðingu sé ekki heppilegur. Þá segir að komið hafi fram í viðtölum nefndarinnar að núverandi réttur veiti foreldrum ekki nægilegt svigrúm til að jafna sig. Nefndin telur því rétt að rýmka réttinn þannig að foreldrar eigi sjálfstæðan rétt til þriggja mánaða fæðingarorlofs.