Forsætisráðuneytið fær að hafa aðkomu að endurhönnun bygginga á reitnum Hafnartorgi í miðborg Reykjavíkur, byggingar sem forsætisráðherra hefur gagnrýnt. Þetta kemur fram í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu og Landstólpum ehf. Landstólpar, sem eiga reitinn við Austurbakka 2, hafa boðist til þess að endurskoða hönnun bygginga á reitnum í samráði við forsætisráðuneytið og einnig boðið Stjórnarráði Íslands að leigja allt skrifstofuhúsnæði á reitnum, alls 6.400 fermetra.
Húsið er um ræðir er hið umdeilda hús gegnt Arnarhóli, sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hefur meðal annars gagnrýnt útlitið á harðlega. „Ef þarna yrði byggt með þeim hætti sem dregið hefur verið upp á þessum myndum yrði það líklega seinna álitið mesta skipulagsslys í miðbæ Reykjavíkur í seinni tíð og jafnvel alla tíð,“ sagði hann við Morgunblaðið fyrir skömmu. Hann lýsti því yfir að hann teldi að endurhugsa þyrfti frá grunni fyrirhugaða uppbyggingu, annars stefni í óefni.
Lóðin hefur líka verið umdeild vegna hafnargarðsins sem þar stóð og Sigrún Magnúsdóttir friðaði sem starfandi forsætisráðherra í október síðastliðnum. Lending náðist í því máli með þeim hætti að Landstólpar þurftu að fjarlægja hafnargarðinn stein fyrir stein og svo verður hann settur upp aftur síðar. Landstólpar hafa lýst því yfir að skaðabætur verði sóttar í ríkissjóð vegna þessa kostnaðar, sem metinn er á hálfan milljarð króna.
Guðni Rafn Eiríksson, einn eigenda Landstólpa, segir að næstu þrjár vikur verði notaðar til að skoða málin og reyna að finna lausn sem öllum aðilum hugnast. Það sé oft þannig að leigjendur að nýbyggingum fái að hafa skoðun og áhrif á byggingarnar, jafnvel útlitið. Það hafi verið samtal milli stjórnarráðsins og fyrirtækisins frá árinu 2014.