Þingmenn Samfylkingar verða að íhuga hvers vegna kjósendur yfirgáfu flokkinn. Stefna flokksins varðandi afnám verðtryggingar gæti verið liður í því. Þetta segir Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingar og annar flutningsmanna frumvarps um afnám verðtryggingar sem hún lagði fram í gær ásamt Helga Hjörvari þingflokksformanni.
Sigríður Ingibjörg segir að eftir miklar og langar samræður um málið innan þingflokksins hafi þau ákveðið að leggja frumvarpið fram.
„Málið væri löngu komið fram ef ekki hefði verið fyrir andstöðu formannsins,” segir hún. „En nú er þetta umdeilda mál komið upp á yfirborðið og við Helgi að bjóða upp á tækifæri til umræðu um það.”
Sigríður Ingibjörg segir umræðuna um verðtrygginguna lengi hafa staðið yfir innan flokksins og að ekki hafi verið einhugur um málið. Nú eftir jól hafi hún og Helgi fengið leyfi til að flytja frumvarpið, sem þau og gerðu í gær.
Hvorki Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, né Katrín Júlíusdóttir varaformaður segjast munu styðja frumvarpið.
Árni Páll sagði í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun að stefna Samfylkingarinnar væri skýr. Flokkurinn vilji afnema verðtryggingu með því að taka upp annan gjaldmiðil og að auka vægi óverðtryggða lána, en ekki afnema verðtryggingu núna.
„Þessir tveir þingmenn eru þeirrar skoðunar og það er eðlilegt að það rúmist ólíkar skoðanir innan flokksins,“ sagði hann.
Ósammála um aðferðir
Sigríður Ingibjörg tekur undir að einhugur sé innan flokksins um afnám verðtryggingar, bara ekki leiðina að henni. Hún segir að þingmenn flokksins verði að spyrja sig hvers vegna kjósendur hafi yfirgefið Samfylkinginguna, sem er að ítrekað að mælast með mjög lítið fylgi í skoðanakönnunum.
„Frumvarpið er lagt fram af heilum hug og er yfirlýsing okkar Helga um skoðun okkar í þessu máli. Samfylkingin á að vera opinn flokkur sem sé óhræddur við að taka á þessu grundvallaratriði,” segir hún. Aðspurð hvort þetta geri stefnu flokksins í málinu ekki óskýra gagnvart kjósendum telur hún svo ekki vera.
„Samfylkingin verður að huga að því að kjósendur misskilji ekki stefnu hennar. Og ég held að mörgum af okkar fyrri kjósendum hafi ekki hugnast stefna okkar í þessum málum.”
Allir þingmenn hafi rétt á sinni skoðun
Katrín Júlíusdóttir, varaformaður Samfylkingar, tekur undir orð Sigríðar Ingibjargar um að ekki sé einhugur innan flokksins um hvaða leið eigi að fara að afnámi verðtryggingar þó að allir séu sammála um að afnema hana.
„En við erum eini flokkurinn sem hefur þó lagt raunverulega af stað í að afnema hana, með viðræðum við ESB og upptöku evru,” segir Katrín. „Síðan deilum við um það hvort það dugi að taka á meininu sem er undirliggjandi eða ekki.”
Hún segir þingmenn hafa fullan rétt á að leggja fram alls kyns mál. Þetta tiltekna mál hafi verið rætt í langan tíma. Frumvarpið geri stefnu flokksins ekki óskýra, heldur séu þetta bara ólík sjónarmið.
„Þau ákveða að gera þetta og það er þeirra réttur,” segir hún. „Þau geta alveg lagt þetta fram með þessum hætti og standa fyrir það sjálf.”