Meira en 36.000 manns hafa sett nafn sitt við undirskriftarsöfnun Kára Stefánssonar, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, um endurreisn heilbrigðiskerfisins. Söfnunin hefur verið aðgengileg á netinu í rúma tvo sólarhringa, eða síðan um miðjan dag á föstudag.
Kári er ánægður með fjöldann.
„Þetta er býsna gott á ekki lengri tíma. Ég væri ekkert hissa á því að við værum komin í 50 þúsund um miðja vikuna.” segir hann í samtali við Kjarnann. „Því ég held að þetta sé almennt það sem fólk vill. Gera menn sér virkilega ekki grein fyrir því að við erum í raun að fallast á að fólk þjáist meira hér en annars staðar með því að fjármagna ekki heilbrigðiskerfið eins og nauðsynlegt er?”
Sjálfstæðismenn gagnrýna Kára
Þingmenn Sjálfstæðisflokks, þeir Jón Gunnarsson og Brynjar Níelsson, hafa gagnrýnt Kára fyrir undirskriftarsöfnunina og farið fram á að hann útskýri hvar eigi að skera niður á móti ef 11 prósent af vergri landsframleiðslu eigi að fara inn í rekstur heilbrigðiskerfisins, en ekki 8,7 prósent eins og nú er.
Kári gefur lítið fyrir þessa gagnrýni.
„Heilbrigðiskerfið er það kerfi sem við notum til að hlúa að þeim veiku í okkar samfélagi. Og með því að fjármagna það eins og við höfum verið að gera erum við að fallast á að lasnir og meiddir eigi að þjást meira en nauðsynlegt er,” segir hann. „Mín tillaga er sú að fjármagna heilbrigðiskerfið fyrst, áður en við förum að skipta kökunni á milli annarra málaflokka. Þessir tveir þingmenn virðast vera hræddari við skattahækkanir en þjáningar og dauða.”
Kári skrifar ummæli Jóns og Brynjars á hvatvísi og vonast til þess að ummæli þeirra hafi ekki unnið flokki þeirra of miklu tjóni. Hann ætlar að svara gagnrýni þeirra skriflega á Facebook í kvöld.
Undirskriftarsafnanir hafa orðið æ algengari hér á landi undanfarin ár, sérstaklega eftir efnahagshrunið með tilkomu netsins og samfélagsmiðla. Endurreisn Kára Stefánssonar er sú fyrsta á þessu ári.