Ríkisendurskoðun segir að það þurfi ekki að koma á óvart að búið sé að segja upp samningi um rekstur sjúkrahótels í Ármúla, miðað við það sem á undan er gengið. Landspítalinn og Sjúkratryggingar hafi lengi deilt opinberlega um reksturinn, og meginvandinn liggur í því að stofnanirnar tvær hafa mismunandi sýn á það hvernig sjúkrahótelið á að vera, hverjir eiga að dvelja þar og hvernig þjónustu á að veita. Þetta er ótækt að mati Ríkisendurskoðunar, sem hvetur velferðarráðuneytið til að höggva á hnútana í nýrri skýrslu.
Heilsumiðstöðin/Sinnum sagði upp samningi við Sjúkratryggingar fyrir helgi, og sagði það vegna þess að starfsemi miðstöðvarinnar við rekstur sjúkrahótels í Ármúla væri bitbein milli opinberra aðila sem takist á um hvar fjárveitingin til starfseminnar eigi að vera, og hafi ólíkar skoðanir á eðli og hlutverki sjúkrahótelsins.
Athugasemdir frá upphafi
Landspítalinn hefur nánast frá upphafi samningsins árið 2011 gert margvíslegar athugasemdir við aðstöðu, aðbúnað og efndir rekstraraðila sjúkrahótelsins. Sjúkratryggingar telja athugasemdir spítalans hins vegar tilefnislausar. Stofnanirnar tvær líta á reksturinn mjög ólíkum augum og samskipti þeirra eru þeim til vansa, segir ríkisendurskoðun. Stofnanirnar verði að leggjast á eitt og koma samskiptum sínum í eðlilegan farveg með hjálp ráðuneytisins.
Landspítalinn veitir hjúkrunarþjónustu á hótelinu en Heilsumiðstöðin/Sinnum sjá um hótelþjónustu. Hins vegar hefur aldrei farið fram mat á raunverulegri þörf sjúklinga fyrir hjúkrun og aðhlynningu þar. Þess vegna hefur verið deilt um ástand og þjónustuþörf sjúklinga sem þangað koma. Sjúkratryggingar segja að sjúklingar eigi að vera sjálfbjarga þegar þeir koma þangað, þótt þeir geti veikst þar og þá þurft meiri meðferð, en Landspítali og Heilsumiðstöðin eru á því að stundum komi sjúklingar veikir á hótelið.
Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hefur líka í tvígang gert ýmsar athugasemdir við aðbúnað á sjúkrahótelinu. Fyrst í desember 2012 og svo í mars 2015.
Þá gerði embætti landlæknir athugasemdir í sinni úttekt í fyrra, en taldi engu að síður að í heildina væri þjónusta sjúkrahótelsins góð.
Engin stefna eða skilgreiningar
Velferðarráðuneytið er einnig hvatt til þess í skýrslunni að marka skýra stefnu um eðli og rekstur sjúkrahótela. Slíkt hafi ekki verið gert í ráðuneytinu, þar sem engin skýr stefna hafi verið mörkuð um hvernig þessum málum skuli vera háttað.
Lög um heilbrigðisþjónustu fjalla ekki neitt um sjúkra- eða sjúklingahótel, en hugtakið sjúkrahótel er skilgreint í reglugerð. Sjúkrahótel eru því ekki heilbrigðisstofnanir samkvæmt lögum.
Ríkisendurskoðun segir að það sé mótsögn falin í skilgreiningunni á sjúkrahóteli annars vegar og ákvæðum samninganna hins vegar. Þessu þurfi að eyða því mótsögnin eigi verulega sök á ágreiningnum um málið. Annað hvort þurfa sjúkrahótel að teljast til heilbrigðisþjónustu eða þá að þjónusta verði takmörkuð.
Þá er velferðarráðuneytinu bent á að það þurfi að tryggja samræmda skráningu upplýsinga, sem sé forsenda þess að hægt sé að meta þjónustuna og hagkvæmnina. Tölurnar frá Landspítala og Sinnum/Heilsumiðstöðinni eru mjög ólíkar hvað þetta varðar, enda teknar saman út frá mismunandi forsendum.
Greiddu milljónir til Sinnum í bætur
Sjúkratryggingar greiddu Sinnum, sem þá sá um hótelið, tvisvar sinnum efndabætur vegna samningsins árið 2012. Upphæðirnar námu 6,5 milljónum í janúar og 7,3 milljónum í ágúst, samtals 13,8 milljónir króna.
Þetta var byggt á upplýsingum úr útboðsgögnum, sem sögðu það mögulegt að hlutfall ósjúkratryggðra á hótelinu myndi hækka úr þeim 6% gesta sem gert var ráð fyrir. Þetta gekk ekki eftir, ósjúkratryggðir voru 2,5% árið 2011 og 2% fyrri hluta 2012. Vegna þessa fékk fyrirtækið bæturnar, þrátt fyrir að komið hafi fram í útboðslýsingunni að tölurnar væru settar fram „sem vísbending og er því ekki loforð um kaup.“ Sinnum krafðist reyndar líka bóta vegna niðurfellingar Landspítala á hjúkrunarþjónustu um jól og áramót, sem leiddi til lægri tekna fyrirtækisins.
Þetta segir Ríkisendurskoðun að hefði þurft að vera skýrara í samningum, auk þess sem eðlilegt hefði verið að Landspítalinn kæmi að málinu, sem hann gerði ekki.