Yfir 48 þúsund manns hafa nú skrifað undir undirskriftasöfnun Kára Stefánssonar um endurreisn heilbrigðiskerfisins. Söfnunin er þar með komin í sjötta sæti yfir stærstu undirskriftasafnanir á Íslandi, sé tekið mið af listum þar sem stærstu safnanirnar hafa verið teknar saman.
Fimm undirskriftasafnanir hafa verið stærri en sú sem nú er í gangi. Í fimmta sæti er nýlegasta stóra söfnunin, sem fór fram undir nafninu Þjóðareign í fyrra. Ríflega 51 þúsund manns skrifuðu undir áskorun á forseta Íslands að vísa í þjóðaratkvæðagreiðslu hverjum þeim lögum sem Alþingi samþykkir þar sem fiskveiðiauðlindum væri ráðstafað til lengri tíma en eins árs, á meðan ekkert ákvæði um þjóðareign á auðlindum er í stjórnarskrá.
Árið 2014 skrifuðu svo tæplega 54 þúsund manns undir kröfu um að áframhald viðræðna um aðild að Evrópusambandinu yrði sett í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Í þriðja sæti yfir stærstu undirskriftasafnanirnar er undirskriftasöfnunin Varið land, frá árinu 1974. Rúmlega 55.500 manns skrifuðu undir þá undirskriftasöfnun og hún sker sig úr í hópi þessara vinsælustu safnana að því leyti að hún fór eðli málsins samkvæmt ekki fram á internetinu. Markmiðið með henni var að sýna stuðning við veru bandaríska varnarliðsins á Íslandi.
Rúmlega 56 þúsund skrifuðu undir áskorun til Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, um að hann setti Icesave samning númer 2 í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2010. Það gerði hann á endanum, sem markaði tímamót í lýðveldissögunni, enda í fyrsta sinn sem þjóðaratkvæðagreiðsla fór fram eftir beitingu málskotsréttar forseta.
Langfjölmennasta undirskriftasöfnunin á listanum snérist um að halda Reykjavíkurflugvelli í Vatnsmýrinni og hún hét Hjartað í Vatnsmýrinni. Undir hana skrifðu tæplega 70 þúsund manns árið 2013.