Mennta- og menningarmálaráðuneytið er nú að leggja lokahönd á endurskoðun þjónustusamnings ráðuneytisins við RÚV.
„Þessu verður líklega lokið í þessari viku eða næstu,” segir Þorgeir Ólafsson, upplýsingafulltrúi mennta- og menningarmálaráðuneytisins, í samtali við Kjarnann. „Strangt til tekið hefði átt að gera þessa vinnu 2013, en það var ekki talin nein sérstök þörf á því.”
Að sögn Þorgeirs verða ekki miklar breytingar gerðar á samningnum.
„Lögin eru svo afgerandi að það er lítið hægt að gera. Þau gefa ekki mikið svigrúm til breytinga,” segir hann. „Þetta snýst mest megnis um fjármálin og þess háttar. En það verður spennandi að sjá hver niðurstaðan verður. Nú er ekkert annað að gera en að hinkra nokkra daga og sjá hverju fram vindur.”
Sigríður Hallgrmísdóttir, aðstoðarmaður Illuga Gunnarssonar menntamálaráðherra, tekur undir með Þorgeiri að samningsgerð sé á lokametrunum. Hún getur ekki tjáð sig um efnisatriði samningsins.
Miklar umræður fóru af stað um RÚV í lok síðasta árs þegar frumvarp Illuga um endurskoðun á lækkun útvarpsgjalds fékk ekki stuðning ríkisstjórnarinnar. Magnús Geir Þórðarsson útvarpsstjóri sagði að ef útvarpsgjaldið lækki dragist tekjur RÚV saman um 500 milljónir króna á þessu ári. Þá geti stofnunin ekki uppfyllt þjónustusamning sinn við ríkið.