Ríkisstjórnin hefur ákveðið að veita þriggja milljóna króna styrk til gerðar heimildarmyndar um móttöku sýrlensku flóttamannanna hér á landi.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra bar tillöguna upp á fundi ríkisstjórnar í gær og var hún samþykkt einróma.
Það er framleiðslufyrirtækið Skotta Film sem framleiðir myndina með Árna Gunnarsson, fyrrverandi formann Flóttamannaráðs, í fararbroddi.
Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður forsætisráðherra, segir verkefnið hafa verið að gerjast í einhvern tíma.
„Árni fór til Líbanon og hefur fylgt fólkinu eftir, þá sérstaklega þeim hópi sem fór til Akureyrar,” segir hann. „Hugmyndin er að gera heimildarmynd um móttöku og aðlögun þessara hópa hér á Íslandi og hvernig aðlögun gengur.”
Að sögn Jóhannesar stendur einnig til að gera kennslumyndbönd fyrir skóla og nýta verkefnið á fleiri sviðum. Áætlað er að það taki um ár að gera.