Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra er á leið til Líbanon, þar sem hann ætlar að kynna sér aðstæður flóttamanna og starf stofnana Sameinuðu þjóðanna og Rauða krossins á svæðinu. Síðar í vikunni fer hann svo til London á sérstakan leiðtogafund um málefni Sýrlands.
„Forsætisráðherra mun meðal annars heimsækja Flóttamannahjálp SÞ (UNHCR) og Palestínuflóttamannaaðstoð SÞ (UNRWA), samræmingarskrifstofu SÞ (OCHA), skrifstofu sérstaks samræmingaraðila SÞ í Líbanon (UNSCOL) og funda meðal annars með yfirmönnum þessara stofnana á svæðinu. Þá mun forsætisráðherra heimsækja flóttamannabúðir á vegum UNHCR og búðir fyrir Palestínuflóttamenn á vegum UNRWA,“ segir í fréttatilkynningu frá forsætisráðuneytinu.
Sigmundur mun einnig funda með framkvæmdastjóra og öðrum fulltrúum Rauða krossins í Líbanon og heimsækja verkefnið Heilsugæsla á hjólum, sem Íslendingar hafa styrkt.
Hann mun einnig funda með forsætisráðherra Líbanon og forseta líbanska þingsins.
Leiðtogafundinn um málefni Sýrlands í London sækir forsætisráðherra í boði forsætisráðherra Bretlands, Þýskalands, Noregs og Kúveit.
„Á fundinum verða meðal annars til umfjöllunar framlög ríkja heims til að styðja við flóttamannavandann í löndunum í kring um Sýrland, möguleikar á efnahags- og atvinnuuppbyggingu í Sýrlandi og stuðningur við menntun innan Sýrlands og meðal flóttamanna í nágrannalöndum þess. Forsætisráðherra mun á fundinum kynna framlag Íslands til aðstoðar við flóttamenn í nágrannalöndum Sýrlands fyrir árin 2015-16.“ Í tengslum við leiðtogafundinn mun Sigmundur Davíð einnig funda með forsætisráðherrum Norðurlanda í London um fólksflutningavandann.