Bananar ehf., dótturfélag Haga og stærsti heildsali grænmetis á Íslandi, hefur greitt Högum á fimmta milljarð í arð á síðastliðnum fjórum árum. Þetta kemur fram á vef RÚV, en Finnur Árnason, forstjóri Haga, er gestur Kastljóss í kvöld, þar sem hann ræðir meðal annars um rekstur Haga og skýrslu Bændasamtakanna um matvörumarkaðinn.
Hagar reka Bónus og Hagkaup og eru með markaðsráðandi stöðu á matvörumarkaði á Íslandi.
Sé miðað við síðustu ár þá hefur grænmetisheildsan verið um 10 prósent af veltu Haga, en skilar hagnaði sem nemur um 20 prósent af honum.
Undanfarin fjögur ár hefur ársvelta Banana verið á milli sjö og átta milljarðar króna á ári, að því er fram kemur á vef RÚV. Hagnaður hvers árs hefur verið um og yfir 900 milljónir króna hvert ár. Á þessum fjórum árum hefur félagið greitt Högum 4,25 milljarða króna í arð, rúmlega hálfa ársveltu fyrirtækisins. Mest var greitt í arð árið 2012, eða 2,2 milljarða króna.
Finnur Árnason segir í samtali við RÚV, að fyrirtækið Bananar sé einfaldlega vel rekið, og því skili það góðri arðsemi fyrir Haga. Finnur hefur alfarið hafnað gagnrýni frá Bændasamtökunum í þá veru, að smásalan, og þá einkum Hagar, séu að stinga of miklu í sinn vasa á kostnað neytenda.
Hann hefur sagt ávirðingar í þá veru „svívirðilegar“. Það séu sameiginlegir hagsmunir íslensks landbúnaðar, verslunarinnar og neytenda að breyta landbúnaðarkerfinu á þann hátt, að meiri hagkvæmni ráði ríkjum og að neytendur njóti fjölbreytts vöruúrvals og besta verðs.