Píratar mælast með 35,3 prósent fylgi í nýjustu skoðanakönnun Gallup, sem greint var frá í kvöldfréttum RÚV í kvöld. Það er rúmum tveimur prósentum meira en flokkurinn var með í síðustu könnun fyrirtækisins. Píratar hafa nú mælst með yfir 30 prósent fylgi, og sem stærsta stjórnmálaafl landsins, í öllum könnunum Gallup frá því í apríl 2015.
Sjálfstæðisflokkurinn er næst stærsti flokkur landsins með 24,4 prósent fylgi. Það er einu prósentustígi lægra en það fylgi sem flokkurinn mældist með í síðustu könnun Gallup. Framsóknarflokkurinn stendur í stað milli mánaða með tólf prósent fylgi og Vinstri grænir bæta lítillega við sig, mælast nú með 10,8 prósent fylgi.
Samfylkingin heldur áfram að tapa fylgi í könnunum Gallup og mælist nú með 9,2 prósent fylgi. Það er minnsta fylgi sem flokkurinn hefur mælst með í könnunum Gallup. Næst komst hún þessum botni í ágúst síðastliðinum, þegar fylgið mældist 9,3 prósent.
Staða Bjartrar framtíðar er heldur ekki beysin. Einungis 3,6 prósent kjósenda segja að þeir myndu kjósa flokkinn ef kosið yrði í dag. Það er minnsta fylgi sem flokkurinn hefur mælst með á þessu kjörtímabili.