Rekstrarhagnaður fjölmiðlasamsteypunnar 365 var nálægt einum milljarði króna á árinu 2015 fyrir fjármagnskostnað, afskriftir og skatta, samkvæmt óendurskoðunum rekstrarreikningi fyrirtækisins. Þetta segir Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri 365 og starfandi fjármálastjóri. Tilkynnt var um þessar rekstrartölur á starfsmannafundi í gærmorgun klukkan 11.
Á árinu 2014 tapaði 365 samtals 1,4 milljarði króna þrátt fyrir að 445 milljónir króna hefðu verið greiddir inn sem nýtt hlutafé. Velta fyrirtækisins dróst saman um tæplega 400 milljónir króna á því ári og skuldir þess hækkuðu um tæpan milljarð króna. Þær stóðu í 8,9 milljörðum króna í árslok þess árs. Tapið hefði orðið hærra ef ekki hefði verið fyrir uppsafnað skattalegt tap því tap 365 fyrir tekjuskatt nam rúmlega 1,6 milljarði króna. Það er svipuð upphæð og 365 hagnaðist samtals um síðustu fjögur árin á undan. Samkvæmt ársreikningi ársins 2015 átti enn eftir að færa endurálagningu skatta upp á 372 milljónir króna í rekstrarreikning 365, en sú endurálagning var staðfest af yfirskattanefnd í júlí 2015.
Því er um mikinn viðsnúning að ræða á rekstri 365 samkvæmt þeim tölum sem Sævar kynnti á starfsmannafundinum í gærmorgun.
Fjármálastjórinn hætti eftir fimm mánuði í starfi
365 auglýsti eftir nýjum fjármálastjóra í fjölmiðlum um liðna helgi. Guðmunda Ósk Kristjánsdóttir hætti sem fjármálastjóri fyrirtækisins í síðustu viku eftir einungis fimm mánuði í starfi. Hún kom til 365 frá Landsbankanum og fór aftur þangað, að sögn Sævars. „Hún ákvað að fjármálageirinn heillaði og fór aftur til bankans.” Sævar sinnir starfinu þar til nýr fjármálastjóri hefur verið ráðinn.
365 fór í útboð með öll bankaviðskipti sín í fyrrahaust, en fyrirtækið hafði verið í þjónustu hjá Landsbankanum árum saman. Í kjölfar útboðsins ákvað 365 að ganga til samninga við Arion banka sem nú er viðskiptabanki fyrirtækisins. Í tilkynningu vegna þessa, sem send var út í nóvember 2015, sagði að útboð á bankaviðskiptum væri liður í því að „undirbúa félagið betur fyrir mögulega skráningu félagsins í Kauphöll Íslands“.
Engar uppsagnir standa fyrir dyrum
Sævar segir rekstur 365 ganga vel og að hagnaður fyrir fjármagnskostnað, afskriftir og skatta (EBITDA) hefði aukist um 53 prósent frá fyrra ári þegar miðað sé við reglulega starfsemi, þó tölurnar séu óendurskoðaðar. „Reksturinn er að þróast í rétta átt og undirliggjandi starfsemi er að styrkjast. Við erum mjög ánægð með þróunina núna. Við ætlum okkur þó alltaf eitthvað meira, en þetta er staðan hjá okkur núna.”
12 starfsmönnum var sagt upp hjá 365 í október síðastliðnum, níu karlmönnum og þremur konum. Sævar segir að erfiðar aðgerðir séu óumflýjanlegar þegar bæta eigi rekstur. „Maður er að reyna að bæta rekstur og bæta upplifun viðskiptavina heima í stofu. Það hefur í för með sér að stundum þarf að taka erfiðar ákvarðanir,” segir hann. Aðspurður hvort uppsögnum sé þá lokið í ljósi bættrar rekstrarstöðu segir hann: „Það er ekkert sem stendur fyrir dyrum á þessari stundu. Við erum í sóknarhug.”
Kjarninn greindi ársreikning 365 þegar hann var birtur opinberlega í nóvember 2015. Hægt er að lesa þá greiningu hér.