Tæplega 59% Íslendinga eru hlynntir því að framtíðarstaðsetning Reykjavíkurflugvallar verði í Vatnsmýri, samkvæmt nýrri könnun frá Maskínu. Þetta er talsvert minni stuðningur við núverandi staðsetningu flugvallarins en síðast þegar Maskína spurði um málið, í september 2013. Þá voru 72% hlynnt því að flugvöllurinn væri um kyrrt.
43,9% sögðust vera mjög hlynnt því að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýri. 14,7% eru fremur hlynnt því en 19,3% segjast vera í meðallagi. 9,8% eru fremur andvíg því að halda flugvellinum í Vatnsmýri og 12,4% eru mjög andvíg því að flugvöllurinn verði um kyrrt.
Íbúar landsbyggðarinnar eru hlynntari flugvellinum í Vatnsmýri en íbúar höfuðborgarsvæðisins og þeir sem eru eldri vilja heldur halda flugvellinum á sama stað en þeir sem eru yngri.
47,1% íbúa í Reykjavík vilja halda flugvellinum í Vatnsmýrinni, 36,5% vilja ekki hafa hann í Vatnsmýri og 16,3 prósent velja kostinn í meðallagi, hafa ekki sterka skoðun á málinu.
Í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur er meirihluti fyrir því að halda vellinum í Vatnsmýri, 56,6% eru á þeirri skoðun. 19,6% vilja flytja völlinn og 23,8% eru þar á milli.
71,4 prósent svarenda á landsbyggðinni eru hins vegar þeirrar skoðunar að flugvöllurinn eigi að vera áfram í Vatnsmýri. 18,8% velja kostinn í meðallagi en aðeins 9,7% vilja ekki að flugvöllurinn verði um kyrrt.
Minnihluti fólks til 35 ára aldurs vill hafa flugvöllinn áfram, en frá 35 ára og upp úr segist meirihluti vilja hafa flugvöllinn áfram á sama stað. Hlutfallið hækkar verulega með hærri aldri, og í hópi 55 ára og eldri vilja ríflega 73 prósent halda flugvellinum í Vatnsmýrinni.
Þá eru kjósendur stjórnarflokkanna mun hlynntari því að halda flugvellinum í Vatnsmýri en kjósendur stjórnarandstöðuflokkanna eru. 93,1 prósent þeirra sem myndu kjósa Framsóknarflokkinn í dag segjast vilja halda flugvellinum þar sem hann er, og 77,8 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins.
45,4 prósent kjósenda VG vilja flugvöllinn áfram í Vatnsmýri, 44,1 prósent samfylkingarfólks og 41,2 prósent kjósenda Pírata. 24,4 prósent kjósenda Bjartrar framtíðar styðja að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýri, en það er líka eini kjósendahópurinn þar sem meirihluti, 51,4 prósent, vill að hann víki þaðan.
Svarendur koma úr Þjóðgátt Maskínu, sem er panelhópur fólks sem er dregið með tilviljun úr Þjóðskrá og svarar á netinu. Svarendur eru af báðum kynjum, alls staðar að af landinu og á aldrinum 18-75 ára. Gögnin eru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu samkvæmt Þjóðskrá. Könnunin fór fram dagana 15. - 26. janúar 2016. Send var áminning þrisvar sinnum á þá sem ekki höfðu svarað. Alls svöruðu 847 manns og var svarhlutfall tæplega 50% af upphaflegu úrtaki.