Össur Skaphéðinsson, þingmaður Samfylkingar og fyrrverandi utanríkisráðherra, neitar að svara hvort hann ætli að bjóða sig fram til forseta í næstu forsetakosningum.
Kjarninn hefur ítrekað reynt að ná tali af Össuri undanfarnar vikur, en hann hefur ekki orðið við fyrirspurnunum þegar í ljós kemur hvað á ræða.
Töluverð umræða hefur skapast um mögulegt forsetaframboð Össurar undanfarið, sérstaklega eftir að Jón Gnarr tilkynnti að hann ætli ekki að bjóða sig fram. Samkvæmt heimildum Kjarnans er nú unnið að því að kanna landslagið fyrir mögulegt framboð Össurar.
Össur var í viðtali í Morgunútgáfu Rásar 2 í gær þar sem hann talaði fyrir sameiningu á vinstri vængnum sem myndi fyrst og síðast verða til þess að almenningi verði færður rétturinn til að ákveða eigin örlög með þjóðaratkvæði og taka inn í stjórnarskrána ákvæði sem tryggi sameign tryggir sameign landsmanna á þjóðarauðlindinni. Þá ræddi hann um hið mikla fylgi Pírata og sagði: „Það eru byltingartímar framundan.”
Aðrir sem nefndir hafa verið í sambandi við forsetakosningarnar, og eru ekki nú þegar búnir að boða framboð sitt, eru meðal annars Andri Snær Magnason rithöfundur, Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, Halla Tómasdóttir athafnakona, Hrannar Pétursson, fyrrverandi ráðgjafi í stjórnarráðinu og upplýsingafulltrúi Vodafone, Linda Pétursdóttir, athafnakona og Ólafur Jóhann Ólafsson rithöfundur.
Fjölmargir hafa líka verið nefndir - og neitað. Meðal annars Einar K. Guðfinnsson, Jakob Frímann Magnússon og Guðni Ágústsson.
Nú þegar hafa sex tilkynnt um framboð: Þorgrímur Þráinsson rithöfundur, Elísabet Jökulsdóttir rithöfundur, Ástþór Magnússon, forsvarsmaður Friðar 2000, Hildur Þórðardóttir þjóðfræðingur, Ari Jósepsson skemmtikraftur og Sturla Jónsson bílstjóri.