Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingar, ætlar ekki að ákveða strax hvort hann gefur áfram kost á sér sem formaður flokksins. Hann hefur sent flokksfélögum langan póst um málið. Ákveðið var að flýta landsfundi í gær og verður hann haldinn í júní næstkomandi í stað byrjun árs 2017. Í aðdragandanum verður ný forysta kosin í allsherjaratkvæðagreiðslu. Árni Páll ætlar að ákveða á næstu vikum hvort hann ætli að bjóða sig áfram fram. Hann segir Samfylkinguna hafa gert mörg mistök, meðal annars í Evrópusambandsmálum og Icesave.
„Eftir umræðu undanfarinna vikna hefur framkvæmdastjórn ákveðið að efna til landsfundar og formannskjörs í vor. Ég fagna þeirri ákvörðun. Við vildum öll vera að tala um breytingarnar sem þarf að gera,“ skrifar Árni Páll í bréfinu. „Hvernig við byggjum upp nýtt efnahagskerfi, til að koma í veg fyrir að sömu mennirnir skammti sér aðstöðu og ríkiseignir, eins og í Borgunarhneykslinu nú og ótal slíkum hneykslum áður undanfarna áratugi. Við ættum að vera að tala af krafti fyrir fleiri vel launuðum störfum og betri velferðarþjónustu, til að halda í fólkið sem nú leitar sér að framtíð í öðrum löndum. Og við ættum að vera að tala um lausnir í húsnæðismálum. En athyglin hefur verið annars staðar og því verður að breyta.“
Hann segir nauðsynlegt að flokkurinn eigi samtal um ýmis mál, sem hann útlistar, til að skapa sátt og traust. „Við eigum að gera það sjálf, en líka kalla til leiks fólk sem er hætt að starfa með okkur eða er á jaðri flokksins. Við þurfum að funda um allt land og allir eiga að fá rödd í þessari umræðu. Það eina sem ég bið um er að við gerum þetta af heilindum. Ég mun helga mig því verkefni næstu vikur að greiða fyrir þessari umræðu og taka fullan þátt í henni. Seinna mun ég svo taka afstöðu til þess hvort ég gefi kost á mér á nýjan leik sem formaður flokksins.“
Árni Páll segir að honum þyki „óendanlega vænt um Samfylkinguna og er afar stoltur yfir því trausti sem ég hef notið til að starfa í hennar þágu.“ Því líti hann á það sem skyldu sína sem formanns að gangast fyrir því að flokkurinn horfi „lengra og dýpra.“ Það skipti í sjálfu sér engu máli hver verði formaður flokksins ef flokkurinn horfist ekki í augu við sjálfan sig og hvernig komið er fram og fólkið í landinu nálgast.
ESB og Icesave mistök
Hann útlistar mistök sem flokkurinn hafi gert allt frá því að flokkurinn fór í ríkisstjórn árið 2007. „Við gengum þá inn í valdakerfi hinna gömlu flokka, án þess að gera kröfu um grundvallarbreytingar [...] Flest okkar mistök fólust í því sama: Að ganga grónu kerfi á hönd án þess að gera kröfu um grundvallarbreytingar.“
Flokkurinn hafi misst náið samband við verkalýðshreyfinguna og talsamband við atvinnulífið. Þá hafi hann stutt samning um Icesave, sem ekki varði ítrustu hagsmuni þjóðarinnar.
„Við byggðum aðildarumsókn að ESB á flóknu baktjaldasamkomulagi, sem aldrei hélt, í stað þess að fá skýrt umboð frá þjóðinni til að fara í aðildarviðræður, sem hefði bundið alla flokka við umsóknarferlið,“ skrifar hann um Evrópusambandsmálið. Þá hafi flokkurinn gert mistök í skuldamálum heimilanna, með því að ná ekki í gegn breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu og í stjórnarskrármálinu.
Póstur Árna Páls í heild
Kæru vinir og samherjar.
Eftir umræðu undanfarinna vikna hefur framkvæmdastjórn ákveðið að efna til landsfundar og formannskjörs í vor. Ég fagna þeirri ákvörðun. Við vildum öll vera að tala um breytingarnar sem þarf að gera. Hvernig við byggjum upp nýtt efnahagskerfi, til að koma í veg fyrir að sömu mennirnir skammti sér aðstöðu og ríkiseignir, eins og í Borgunarhneykslinu nú og ótal slíkum hneykslum áður undanfarna áratugi. Við ættum að vera að tala af krafti fyrir fleiri vel launuðum störfum og betri velferðarþjónustu, til að halda í fólkið sem nú leitar sér að framtíð í öðrum löndum. Og við ættum að vera að tala um lausnir í húsnæðismálum. En athyglin hefur verið annars staðar og því verður að breyta.
Með ákvörðun sinni bregst framkvæmdastjórn við áskorunum ýmissa flokksmanna upp á síðkastið um landsfund og að forysta endurnýji umboð sitt. Það er athyglisvert að fólki ber saman um að frekari aðgerða er þörf og að skýringa á stöðu Samfylkingarinnar sé ekki að leita einvörðungu hjá forystu flokksins.
Mér þykir óendanlega vænt um Samfylkinguna og er afar stoltur yfir því trausti sem ég hef notið til að starfa í hennar þágu. Þess vegna lít ég á það sem skyldu mína sem formanns að gangast fyrir því að við horfum lengra og dýpra. Við þurfum að skapa sátt og traust okkar á milli og gagnvart þjóðinni.
Við leystum stóru verkefnin
Sjálfur held ég að það skipti í sjálfu sér engu máli hver verður formaður Samfylkingarinnar ef Samfylkingin horfist ekki í augu við sjálfa sig og hvernig hún kemur fram og nálgast fólkið í landinu. Við tökum ekki á rót vandans með mannfórn, án heiðarlegrar umræðu um orsakir þessarar stöðu.
Við getum nefnilega verið gríðarstolt af verkum Samfylkingarinnar. Okkur hefur verið legið á hálsi fyrir að takast ekki vel upp í „stóru málunum“. En hvaða mál eru stærri en að takast á við 220 milljarða halla á ríkissjóði, bankakerfi á hliðinni, 18% stýrivexti og atvinnuleysi sem stefndi í á annan tug prósenta? Það er stóra verkefnið sem við leystum vel og höfðum alltaf fólk í forgangi. Lágmarksbætur almannatrygginga hækkuðu um meira en 50% og voru ekki skertar um eina krónu í óhjákvæmilegum niðurskurði hrunsins. Árangur okkar í viðsnúningi eftir hrun hefur vakið athygli og aðdáun um allan heim. Útgjöldin lögðust á hópa með hærri tekjur, og fólk á meðaltekjum og lágum tekjum bar minni byrðar en dæmi eru um á Vesturlöndum. Á sama tíma jukum við framlög í tækniþróun, tókum á atvinnuleysi ungs fólks, byggðum hjúkrunarheimili, styrktum samkeppnislöggjöf og settum Íslandsmet í samgönguframkvæmdum, svo fáein dæmi séu nefnd.
En þrátt fyrir allt, nutum við ekki þessara góðu verka í síðustu Alþingiskosningum og gerum það ekki nú í hugum kjósenda.
Við búum við alvarlegan skort á trúverðugleika, sem kemur í veg fyrir að fólk styðji okkur. Við verðum að viðurkenna það og takast á við það. Öll, ekki bara sum.
Við gerðum mistök
Þrátt fyrir góð verk gerðum við ýmis mistök, allt frá því að við gengum í ríkisstjórn 2007.
Við gengum þá inn í valdakerfi hinna gömlu flokka, án þess að gera kröfu um grundvallarbreytingar. Þar með vorum við ófær um að takast á við fjölbreytt hagsmunatengsl peninga og stjórnmála – sem enn eru ráðandi – og þá blindu á hættur sem var ríkjandi í aðdraganda hruns. Ingibjörg Sólrún hefur sjálf lýst þessu ágætlega og af miklu hugrekki og beðist afsökunar á sínum hlut í því.
En við fórum svo með allan þennan vanda óuppgerðan með hraði í nýtt samband með VG.
Flest okkar mistök fólust í því sama: Að ganga grónu kerfi á hönd án þess að gera kröfu um grundvallarbreytingar. Flokkurinn sem var stofnaður um ný vinnubrögð, íbúalýðræði og almannarétt lokaði að sér og forðaðist samtal og neitaði þjóðinni um aðkomu að stórum ákvörðunum í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Kjarninn okkar Við misstum það nána samband sem við höfðum haft við verkalýðshreyfinguna og talsambandið við atvinnulífið.
Icesave Við studdum samning um Icesave sem varði ekki ítrustu hagsmuni þjóðarinnar og mæltum gegn þjóðaratkvæðagreiðslu um hann.
Aðildarumsóknin Við byggðum aðildarumsókn að ESB á flóknu baktjaldasamkomulagi, sem aldrei hélt, í stað þess að fá skýrt umboð frá þjóðinni til að fara í aðildarviðræður, sem hefði bundið alla flokka við umsóknarferlið.
Skuldir heimilanna Þegar fólk var að drukkna í skuldafeni tókum við að okkur í of ríkum mæli að útskýra fyrir fólki að það ætti að borga skuldir sínar, í stað þess að taka okkur stöðu með fólki gegn fjármálakerfi.
Fiskveiðistjórnunin Við lofuðum breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfi en týndum okkur í langvinnum samningum fyrir luktum dyrum við samstarfsflokkinn um útfærslur á breytingum, sem strönduðu svo hver á eftir annarri. Þess í stað hefðum við sem lýðræðisflokkur átt að leita til almennings um stuðning í glímunni við sérhagsmunaöflin.
Stjórnarskráin Við höfðum forgöngu um stjórnarskrárbreytingar, en drógum það alltof lengi að áfangaskipta verkefninu til að koma mikilvægustu breytingunum í höfn. Ég tók um síðir af skarið, en í stað þess að samtalið væri lifandi og allt uppi á borðum var upplifun fólks sú að ég hefði brugðist og fórnað málinu og allt hefði klúðrast.
Þetta allt þarf að ræða til að hreinsa loftið, jafnt mín verk og allra annarra. Í þeirri umræðu mega ekki vera nein tabú eða helg vé. Markmiðið er ekki að finna sökudólg, heldur að axla sameiginlega ábyrgð á sameiginlegum mistökum, svo þjóðin viti að við höfum lært af þeim og að kjósendur geti óhræddir treyst Samfylkingunni fyrir atkvæði sínu á nýjan leik. Við þurfum saman að senda skýrt þau skilaboð að við munum ekki fara aftur í ríkisstjórn án þess að gera kröfu um grundvallarbreytingar.
Samstaða og traust okkar á milli
Við höfum nefnilega sem hreyfing og samfélag ítrekað misst af tækifærinu til að axla sameiginlega ábyrgð á mistökum, en frekar kosið að fórna einstaklingum til að koma öðrum í skjól. Ingibjörg Sólrún baðst afsökunar á sínum hlut. Sú afsökunarbeiðni átti að vera okkur fagnaðarefni og tækifæri til að auðvelda flokknum að takast á við mistök í þeirri ríkisstjórn. Í staðinn var sú afsökunarbeiðni nýtt sem syndakvittun fyrir aðra. Flokkurinn tók ekki félagslega ábyrgð á prófkjörum sem hann hafði efnt til, heldur fórnaði Steinunni Valdísi einni. Framgangan í Landsdómsmálinu og fórn Steinunnar Valdísar hafa skilið eftir djúp sár um alla okkar hreyfingu og sáð fræjum efasemda um að við séum samhent sveit sem axli saman félagslega ábyrgð á mistökum sem við gerum saman.
Ég hef oft sagt að Samfylkingin þurfi sjálf að vera gott samfélag, ef hún ætlar að breyta samfélaginu til góðs. Það er alveg nóg af upphrópunum, yfirgangi og afarkostum í daglegri umræðu í samfélaginu í dag og við eigum ekki að tileinka okkur þá samskiptahætti. Við þurfum að breyta því hvernig við tölum hvert við annað. Við þurfum að tala betur hvert um annað, verja hvert annað og sýna að við séum gott og eftirsóknarvert samfélag. Ef sótt er að forystufólki í flokki og enginn kemur því til varnar, upplifir þjóðin það sem skilaboð um sundurlausan flokk sem ekki sé treystandi.
Við erum ólík og fögnum fjölbreytileikanum
Við þurfum að leysa úr læðingi þann glaðsinna sköpunarkraft, sem einkenndi starf og framgöngu Samfylkingarinnar lengi framan af. Okkur þótti svo mikilvægt að vera saman að við funduðum fram á nætur til að finna sameiginlega afstöðu sem vit var í og allir gátu lifað við. Besti vitnisburðurinn um það er að framsækin öfl í samfélaginu í dag beita enn sömu rökum og við mótuðum í okkar starfi um aukinn arð af sameiginlegum auðlindum, lýðræðisumbætur, nýtingu og vernd náttúrusvæða og aðild að Evrópusambandinu. Í þessum málum tókst okkur að skapa sátt um heildstæða stefnu með almannahagsmuni að leiðarljósi. Í öllum þessum tilvikum þorðum við að leita svara með breiðum hópi fólks, innan sem utan flokks og leituðum bestu þekkingar og reynslu.
Samfylkingin þarf nefnilega líka að svara þeirri spurningu af heiðarleika hvort hún er tilbúin að vera breið fjöldahreyfing. Vill hún vera framtíðarflokkur, sem tekur sér stöðu í samfélaginu miðju og fagnar samvinnu við verkalýðshreyfingu og atvinnulíf, þekkingarsamfélagið og frjáls félagasamtök? Er Samfylkingin tilbúin að rúma ólíkar skoðanir en sameinast um meginlínur félagslegs réttlætis og jafnra tækifæra, eða er gerð krafa um eina skoðun og eina leið í öllum málum? Fyrri leiðin er leið fjöldahreyfingar jafnaðarmanna. Seinni leiðin er leið hefðbundins vinstri flokks. Við verðum að velja þar á milli.
Leiðin fram
Við þurfum núna að eiga samtal um þetta allt, til að skapa sátt og traust. Við eigum að gera það sjálf, en líka kalla til leiks fólk sem er hætt að starfa með okkur eða er á jaðri flokksins. Við þurfum að funda um allt land og allir eiga að fá rödd í þessari umræðu. Það eina sem ég bið um er að við gerum þetta af heilindum. Ég mun helga mig því verkefni næstu vikur að greiða fyrir þessari umræðu og taka fullan þátt í henni. Seinna mun ég svo taka afstöðu til þess hvort ég gefi kost á mér á nýjan leik sem formaður flokksins.