Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra segist taka mark á undirskriftum Kára Stefánssonar, rétt eins og hann taki mark á öðru sem kemur að eflingu heilbrigðiskerfisins. Um 68.000 hafa skrifað undir undirskriftarsöfnunina Endurreisum heilbrigðiskerfið þegar þetta er skrifað.
„Þetta styrkir mig að sjálfsögðu í þeirri vinnu sem mér ber að sinna til að leita leiða til að fjármagna heilbrigðisþjónustuna,” segir Kristján Þór í samtali við Kjarnann. „Og söfnunin undirstrikar þá alvöru sem er í umræðunni um þennan málaflokk.”
Spurður hvort hann muni beita sér meira fyrir eflingu málaflokksins í ljósi þess fjölda sem hefur sett nafn sitt við söfnunina segist hann munu gera það sem sama hætti og áður.
„Ég hef barist fyrir eflingu þessa málaflokks eins og aðrir ráðherrar,” segir hann. „Því það er ljóst að við eigum að gera betur þar.”
Allir þurfi að forgangsraða
Kristján segir að þátttaka almennings og umræðan geri kröfu um forgangsröðun á alla sem koma að heilbrigðiskerfinu, ekki bara stjórnmálamenn.
„Sú staða er komin upp að það þarf að forgangsraða og velja á milli. Fólk verður að vera tilbúið að gefa eftir á sínu sviði til að auka hlut annars,” segir hann. „Þetta gerir bæði kröfu á stjórnmálamenn og almenning um að hugur fólks beinist á þessar brautir. Að heilbrigðismálin séu í forgangi.”
Vantar um 1.800 til að komast í fyrsta sæti
Undirskriftasöfnun Kára Stefánssonar, Endurreisum heilbrigðiskerfið, er orðin sú næststærsta í sögunni. Stærsta undirskriftasöfnunin til þessa er Hjartað í Vatnsmýrinni, sem var til stuðnings þess að halda flugvellinum í Vatnsmýri. 69.809 manns skrifuðu undir þá undirskriftasöfnun. Fjöldi hjá Kára var um 68.000 þegar þetta er skrifað. Það vantar því um 1.800 undirskriftir til að sú komist í fyrsta sæti.
Endurreisum heilbrigðiskerfið snýst um að íslensk stjórnvöld verji 11 prósent af vergri landsframleiðslu í rekstur heilbrigðiskerfisins. Núverandi hlutfall er í kring um 8,7 prósent.
Kári sagði við RÚV, þegar 60.000 undirskriftum var náð, að hann haldi að það þurfi töluvert meira til að skjóta stjórnvöldum skelk í bringu. Hann hefur einnig átt, eins og frægt er orðið, í ítrekuðum ritdeilum við Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra um málið, og reyndar önnur mál líka.