Knattspyrnusamband Íslands (KSÍ) mun greina aðildarfélögum sínum frá því í dag, 13. febrúar, á ársþingi sambandsins hvernig styrkir og framlög þess til félaganna í ár muni skiptast. Ljóst er að tilkynningarinnar er beðið með töluverðri eftirvæntingu, enda eru styrkir og framlög KSÍ til aðildarfélaga áætlaðir 413 milljónir króna á árinu 2016. Það er langhæsta upphæð sem KSÍ hefur nokkru sinni útdeilt til félaganna, en til samanburðar fengu þau 147 milljónir króna í fyrra.
Ástæða aukningarinnar er sú að tekjur KSÍ munu tvöfaldast í ár vegna þátttöku karlalandsliðsins í knattspyrnu í Evrópumótinu í knattspyrnu í Frakklandi á komandi sumri. Velta sambandsins mun fara úr 1.112 milljónum króna í 2.263 milljónir króna, aðallega vegna þess að styrkir frá knattspyrnusambandi Evrópu (UEFA) fara úr 356 milljónum króna í 1.506 milljónir króna á milli ára. Samkvæmt nýbirtri fjárhagsáætlun KSÍ mun þessi gríðarlega aukning í veltu skila sambandinu 600 milljónum króna í hagnað á árinu 2016. Og aðildarfélög sambandsins munu njóta þess.
Mest fór til félaga í Pepsí-deild karla í fyrra
KSÍ vildi ekki veita Kjarnanum upplýsingar um hvernig sú fjárhæð sem mun skiptast á milli aðildarfélaga sambandsins skiptist fyrr en búið væri að tilkynna fulltrúum þeirra það á ársþingi KSÍ sem fram fer í dag.
Á árinu 2015 fengu félögin í Pepsí-deild karla 40 milljóna króna styrk frá UEFA vegna barna- og unglingastarfs. KSÍ greiddi síðan öðrum aðildarfélögum en þeim sem léku í Pepsí-deild karla 41,5 milljónir króna (um 28 prósent af heildarkökunni), félögum í Pepsí-deild karla 71,1 milljón króna vegna útsendingar- og markaðsréttar (48 prósent) og félögum í leyfiskerfi KSÍ 22,8 milljónir króna (16 prósent). Þá greiddi KSÍ 11,6 milljónir króna (átta prósent) í ferðaþátttökugjald, verðlaunafé og fleira á árinu 2015. Samtals gera þessar greiðslur KSÍ til aðildarfélaga 147 milljónir króna.
Kjarninn fjallaði ítarlega um ársreikning KSÍ fyrir árið 2015 og fjárhagsáætlun sambandsins fyrir árið 2016 um síðustu helgi. Hægt er að lesa þá umfjöllun hér.