Á síðasta fundi Samráðsvettvangs
um aukna hagsæld, sem komið var á laggirnar snemma árs 2013, var samþykkt að
fara í úttekt á íslenska skattkerfinu og koma með tillögur um hvernig megi bæta
skilvirkni þess. Úttektin á að verða tilbúin í vor. Þetta kom fram í ræðu
Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra á Viðskiptaþingi síðastliðinn
fimmtudag.
Samráðsvettvangurinn, sem settur var saman í kjölfar þess að ráðgjafafyrirtækið McKinsey&Company skrifaði skýrslu um hagvaxtarmöguleika Íslendinga árið 2012, er þverpólitískur og þverfaglegur vettvangur sem ætlað er að stiðla að umræðu um leiðir til að tryggja hagsæld á Íslandi. Þar sitja formenn allra stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi, helstu hagsmunasamtök launþega og atvinnurekenda, fulltrúar háskólasamfélagsins, sveitafélaga og stjórnendur fyrirtækja úr ýmsum atvinnugreinum. Vettvangurinn heyrir undir forsætisráðuneytið.
Lítið hefur farið fyrir Samráðsvettvangnum á þessu kjörtímabili. Hann hefur þó fundað reglulega og síðast þann 13. janúar síðastliðinn. Þar var ofangreind úttekt samþykkt. Á Viðskiptaþingi í síðustu viku varð Katrín Olga Jóhannesdóttir fyrsta konan til að vera kjörinn formaður Viðskiptaráðs. Katrín Olga hefur einnig verið varaformaður Samráðsvettvangs um aukna hagsæld og sem slíkur talað mjög fyrir þeim áherslum sem hann stendur fyrir.
Var í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar
Hugmyndin um heildstæða úttekt á skattkerfinu fæddist þó ekki á síðasta fundi Samráðsvettvangsins. Slík úttekt er hluti af stefnuyfirlýsingu sitjandi ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, sem kynnt var á Laugarvatni í maí 2013, sagði að gerð yrði „úttekt á skattkerfinu og skattkerfisbreytingum undanfarinna ára og lagðar fram tillögur til úrbóta með það að markmiði að einfalda skattkerfið, breikka skattstofna, minnka tekjutengingar og draga úr undanskotum.“ Með einföldun skattkerfisins og innleiðingu jákvæðra hvata yrði rekstur fyrirtækja einfaldari og skilvirkari.
Nú þegar rúmt ár lifir af kjörtímabilinu verður ráðist í þessa úttekt.