Uppljóstraraákvæði, sem gat veitt aðilum réttarvernd gegn ákæru ef þeir gátu veitt upplýsingar um saknæma háttsemi annarra, er ekki lengur í íslenskum lögum. Ákveðið, sem gilti einungis í efnahagsbrotamálum, var til staðar í lögum um embætti sérstaks saksóknara en þau féllu úr gildi um síðustu áramót. Ólafur Þór Hauksson, fyrrum sérstakur saksóknari og nú héraðssaksóknari, staðfestir í Fréttablaðinu í dag að ákvæðið sé ekki lengur við lýði.
Ákvæðið hefur verið umdeilt. Samkvæmt upplýsingum Kjarnans hafa tveir menn fengið réttarvernd gegn ákæru í hrunmálum þar sem upplýsingar bentu til þess að þeir hafi brotið af sér, gegn því að þeir veittu saksóknara upplýsingar sem styrkti málatilbúnað hans. Annar mannanna, Rósant Már Torfason, hlaut slíka réttarvernd árið 2009. Hinn, Magnús Pálmi Örnólfsson, hlaut réttarverndina með bréfi frá ríkissaksóknara í febrúar 2014. Hann hafði áður haft réttarstöðu grunaðs manns í Stím-málinu svokallaða. Þeir störfuðu báðir fyrir Glitni fyrir hrun.
Þá ásakaði Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrum forstjóri Kaupþings, Halldór Bjarkar Lúðvígsson, fyrrum framkvæmdastjóra fjárfestingabankasviðs Arion banka, um að hafa samið sig frá ákæru í hinu svokallaða CLN-máli gegn því að bera vitni. Kjarninn greindi frá því fyrr á þessu ári að Halldór Bjarkar segi það aldrei hafa verið rætt milli hans og starfsmanna sérstaks saksóknara að fallið yrði frá ákæru gegn honum fyrir vitnisburð í málinu. Embætti sérstaks saksóknara staðfesti það einnig að ekki hefði verið samið við Halldór Bjarkar. Hann hefur því ekki hlotið slíka réttarvernd.