Arion banki segir að það sé óvíst eins og mál standi hvort 4,5 miilljarða króna lán bankans til norska félagsins Havila Shipping ASA fáist greitt að fullu. Tíminn einn verði að leiða í ljós hvort svo verði. Íslandsbanki, sem tók þátt í rúmlega sjö milljarða króna sambankaláni til Havila í lok árs 2013, vill ekki tjá sig um stöðu lánveitingar sinnar til Havila á þessari stundu.
Í vikunni hefur Kjarninn greint frá því að hluti kröfuhafa Havila hafi hafnað tillögu um endurskipulagningu á skuldum félagsins sem setji framtíð þess í mikinn vafa. Á miðvikudag tilkynnti Havila, sem skráð er í norsku Kauphöllina, að félagið hefði fært niður virði skipaflota síns, sem telur 27 skip, um 21 milljarð íslenskra króna.
Havila hefur verið eitt af leiðandi félögum í þjónustu við olíuiðnaðinn í Norðursjó á undanförnum árum. Olíuvinnsla þar hefur dregist gríðarlega saman á undanförnum misserum vegna lækkunar á heimsmarkaðsverði á olíu, sem hefur farið úr um 115 dölum sumarið 2014 í um 30 dali í dag. Þumalputtareglan er sú að heimsmarkaðsverð á olíu þurfi að vera í kringum 60 dali á tunnu til að vinnsla í Norðursjó borgi sig. Samhliða hefur þjónustumarkaðurinn sem Havila starfar á hrunið.
Greiningaraðilar telja að Havila muni, að óbreyttu, eiga lausafé fram á haust til að halda starfsemi sinni áfram. Eftir það muni félagið ekki geta rekið sig áfram nema ef til komi eftirgjöf skulda. Stjórn Havila tilkynnti í gær að félagið muni halda áfram starfsemi sinni, þrátt fyrir að kröfuhafar þess hafi hafnað tillögu um endurskipulagning á skuldum félagsins í byrjun viku. Ákvörðunin felur í sér að félagið muni halda áfram viðræðum við kröfuhafa sína um að ná samkomulagi sem muni gera Havila kleift að standa af sér þá erfiðleika sem félagið gengur nú í gegnum. Á meðan að viðræðurnar standa yfir mun Havila hvorki greiða vexti né afborganir af höfuðstólum lána.
Munu upplýsa í næstu viku
Íslandsbanki og Arion banki eru báðir á meðal lánveitenda Havila. Í júlí 2014 lánaði Arion banki Havila 300 milljónir norskra króna, um 4,5 milljarða króna. Íslandsbanki hafði tekið þátt í sambankaláni til Havila upp á alls 475 milljónir norskra króna, rúmlega sjö milljarða króna, nokkrum mánuðum áður. Í fréttatilkynningu frá Íslandsbanka sem send var úr í lok árs 2013 vegna þess var haft eftir Vilhelm Má Þorsteinssyni, framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs Íslandsbanka, að þátttakan í sambankaláni til Havila væri mikilvægt skref í að auka þátttöku okkar í þjónustuiðnaði við olíu og gasleit á Norður Atlantshafi. „Íslandsbanki hefur getu til að lána til erlendra verkefna vegna sterkrar stöðu í erlendum gjaldeyri og styður þannig við frekari uppbyggingu íslenskra og erlendra fyrirtækja í atvinnugreinum þar sem bankinn hefur sérþekkingu.“
Kjarninn leitaði viðbragða hjá bæði Arion Banka og Íslandsbanka við þeirri stöðu sem komin er upp hjá Havila og hvaða áhrif hún muni hafa á þau lán sem bankarnir veittu félaginu. Í svari upplýsingafulltrúa Arion banka segir að það sé óvíst, eins og mál standi, hvort lánið sem bankinn veitti í júlí 2014 fáist að öllu leyti innheimt. Tíminn verði að leiða það í ljós. „Arion banki metur útlánasafn sitt með reglubundnum hætti og tekur tillit til viðeigandi upplýsinga í því mati. Í næstu viku mun bankinn birta ársuppgjör og má gera ráð fyrir að þar komi fram upplýsingar þessu tengdar.“
Arion banki segir að höfnun kröfuhafa Havila á endurskipulagningu á skuldum félagsins, sem upplýst var um í byrjun viku, hefði þau áhrif að nú myndu samningsviðræður um lausn á vanda félagsins hefjast að nýju. „Áður höfðu allir þeir bankar sem koma að fjármögnun á félaginu samþykkt áætlun um endurskipulagningu á skuldum félagsins, það voru eigendur skuldabréfa sem skráð eru á skuldabréfamarkað, sem höfnuðu því uppleggi.“
Íslandsbanki vildi ekki tjá sig um stöðu lánveitinga bankans til Havila þegar Kjarninn leitaði eftir upplýsingum um því. Bankinn muni hins vegar birta ársuppgjör sitt í næstu viku og í kjölfarið muni hann ræða meira um þau lán sem Íslandsbanki tók þátt í að veita Havila.