Sigrún Magnúsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra segir að ríkið muni ekki bera neinn kostnað af því að láta flytja hafnargarðinn á Austurhafnarreitnum. Aðeins launakostnaður vegna eftirlits Minjastofnunar með framkvæmdunum kemur í hlut ríkisins. Þetta kemur fram í svari hennar við fyrirspurn Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur, þingmanns Samfylkingarinnar.
Framkvæmdaraðilinn, Landstólpi, er á öðru máli og telur ljóst að ríkið eigi að bera allan kostnaðinn af framkvæmdunum. Þetta staðfestir Guðni Rafn Eiríksson í samtali við Kjarnann. Búið var að reikna út að kostnaðurinn yrði um 500 milljónir króna, en ekki er ljóst hversu hárrar upphæðar verði krafist.
Landstólpi hefur raunar alltaf haldið því fram að það sé ríkið sem bera eigi kostnaðinn af málinu. Sigrún var settur forsætisráðherra í málinu og ákvað að friða hafnargarðinn þegar framkvæmdir stóðu fyrir dyrum á reitnum. Áður hafði Minjastofnun Íslands beitt skyndifriðun. Þegar búið var að friða garðinn í október síðastliðnum tölu lóðarhafarnir á reitnum, sem er við hlið Tollhússins, að friðlýsingin myndi valda að lágmarki 2,2 milljarða króna tjóni. Þá kom strax fram í bréfi lögmanns lóðarhafa til ríkisins að þessi upphæð yrði sótt úr hendi Minjastofnunar, og því myndi tjónið lenda á ríkissjóði.
Síðar var gert samkomulag milli Minjastofnunar og Landstólpa þar sem ákveðið var að Landstólpi myndi færa hafnargarðinn til þess að geta ráðist í framkvæmdir, en að honum yrði svo komið fyrir á sama stað. Í fréttum í desember síðastliðnum kom fram að gerð yrði krafa vegna þessa á ríkið. „Við munum sækja okkar rétt í þessu. Við teljum að hann sé alveg skýr í ljósi þess að þeir friðuðu garðinn sem er ekki 100 ára. Þannig að þetta endar á skattborgurum,“ sagði Gísli Steinar Gíslason, forstjóri Landstólpa þá.