40% þeirra sem taka 40 ára verðtryggð jafngreiðslulán, svokölluð Íslandslán, myndu ekki standast greiðslumat fyrir styttri lán. Þetta kom fram í máli Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra í sérstakri umræðu um verðtrygginguna á Alþingi í dag. Nefnd um afnám verðtryggingar lagði til að þessi lán yrðu tekin af markaði og hámarkstími slíkra lána yrði 25 ár.
Bjarni sagði að mjög marktæk gögn sem fjármálaráðuneytið hefði fengið um málið bentu til þess að 40% og jafnvel enn hærra hlutfall fólks myndi ekki komast í gegnum greiðslumat á 25 ára lánum. „Þetta er fólkið sem hefur minnst á milli handanna,“ sagði Bjarni um þennan hóp. Það fólk myndi þá falla út af húsnæðismarkaði.
Fjármálaráðuneytið hefur haft tillöguna til skoðunar eftir að sérfræðinefndin skilaði sínum tillögum. Bjarni sagði málið vera nokkuð flókið viðfangs. Ef 40 ára lánin verða afnumin gæti þurft að auka stuðninginn við þennan hóp með einhverjum hætti, og Bjarni spurði hvort það væri æskilegt. Mögulegt væri að halda inni valkostinum á 40 ára lánum fyrir allra lægstu tekjuhópana. Aðgerðir í þessum málum verði að vera þannig að ekki sé þrengt að þeim hópum sem minnst hafa milli handanna og hafa verið að nota þennan valkost.