Katrín Júlíusdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar, ætlar að hætta á þingi eftir næstu Alþingiskosningar. Hún greinir frá þessu í bréfi sem hún sendi til samflokksmanna sinna. Katrín ætlar ekki að gefa kost á sér áfram í forystustörf fyrir flokkinn á næsta landsfundi Samfylkingarinnar, sem haldinn verður í byrjun júní 2016.
Í bréfinu segist Katrín þakklát fyrir það traust sem henni hafi verið sýnt undanfarið og að margir hafi skorað á hana til að sækjast eftir frekara forystuhlutverki innan flokksins. Hún segir ákvörðun sína að hætta vera persónulegs eðlis.
Katrín hefur verið þingmaður fyrir Samfylkinguna frá árinu 2003. Hún gegndi embætti iðnaðarráðherra árin 2009 til 2012 og var fjármála- og efnahagsráðherra 2012 til 2013. Hún hefur verið varaformaður Samfylkingarinnar frá 2013.
Bréf Katrínar í heild sinni:
Kæru félagar,
spennandi og krefjandi tímar eru framundan hjá okkur sósíaldemókrötum á Íslandi. Stærsta verkefnið er að mynda samhenta sveit sem tryggir sterka rödd jöfnuðar, réttlætis, gagnsæis og frelsis í pólitískri umræðu og aðgerðum.
Í yfir 20 ár hefur hreyfing jafnaðarmanna treyst mér fyrir ólíkum verkefnum, þar af hafið þið falið mér það mikilvæga verkefni að sitja á Alþingi Íslendinga sl. 13 ár. Þar hef ég á hverjum degi lagt mig fram um að gera mitt allra besta í mörgum ólíkum hlutverkum; í störfum nefnda, í forystu iðnaðarnefndar, í forystu EFTA/EES þingmannanefndarinnar ásamt því að gegna embætti iðnaðarráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra.
Um leið og ég þakka ykkur fyrir þetta traust sem þið hafið sýnt mér, finnst mér mikilvægt að deila með ykkur ákvörðun sem ég hef tekið.
Mörg ykkar hafið skorað á mig undanfarið að sækjast eftir frekara forystuhlutverki í okkar hreyfingu nú á þessu vori og fyrir það traust og þá vináttu sem þið sýnið mér er ég afar þakklát. Ég hef hinsvegar tekið þá ákvörðun að sækjast ekki eftir endurkjöri í næstu alþingiskosningum og þar af leiðandi mun ég ekki bjóða fram krafta mína til frekari forystustarfa fyrir Samfylkinguna. Ákvörðun mín um að þetta verði mitt síðasta kjörtímabil sem ykkar fulltrúi á þingi er persónuleg, ég finn að nú er rétti tíminn til að snúa mér að öðru. Á sama tíma og ég mun sakna samstarfsins við ykkur þá er ég líka spennt fyrir framtíðarævintýrum. Ég er lánsöm. Á fallega fjölskyldu, elska lífið og ætla að halda áfram að grípa ný og spennandi tækifæri með báðum höndum.
Ný flott kynslóð stjórnmálamanna á öllum aldri bankar nú á dyrnar. Þeim eigum við að fagna og treysta til að bera kyndil hugsjóna okkar inn í nýja tíma. Vil ég jafnframt nota þetta tækifæri til að hvetja ungt fólk til að láta til sín taka í stjórnmálum og móta þannig framtíðina við hlið reynsluboltanna.
Þetta er ekki kveðjubréf - það kemur þegar ég læt af störfum:)
Látum komandi misseri einkennast af gerjun og kraumandi umræðu um hugmyndir og framtíðarlausnir á verkefnunum sem við blasa.
Hlakka til að taka þátt í því með ykkur!
Ykkar,
Katrín