Þriðji hver Íslendingur býr á heimili þar sem áskrift er að efnisveitunni Netflix. Tæp 60 prósent landsmanna eru ekki með áskrift, en tæp átta prósent segjast ætla að fá sér áskrift á næstu sex mánuðum.
Þetta eru niðurstöður nýrrar skoðanakönnunar MMR.
Kjósendur Framsóknar og VG vilja síður Netflix
Algengi Netflix áskriftar var misjafnt eftir lýðfræðihópum, sér í lagi eftir aldri. Til dæmis voru heimili tæplega helmings þeirra sem eru 18-29 ára með Netflix áskrift, en einungis um tæp 8 prósent heimila þeirra sem voru 68 ára og eldri. Tekjuhærri hópar voru einnig líklegri til að hafa Netflix áskrift heldur en tekjulægri hópar.
Stuðningsmenn Framsóknar og Vinstri-grænna voru mun ólíklegri til að hafa Netflix áskrift heldur en stuðningsmenn annarra flokka.
MMR gerði könnunina dagana 12. til 20. janúar 2016 og voru 922 einstaklingar sem svöruðu.
Netflix opnaði fyrir starfsemi sína í Íslandi í byrjun ársins. Áskriftarleiðirnar kosta átta til tólf evrur á mánuði. Það var þó hægt að vera með áskrift að Netflix á Íslandi áður en það opnaði löglega hér á landi. Í október í fyrra voru rúm 18 prósent íslenskra heimila með áskrift að Netflix, eftir krókaleiðum.