Maður frá Sri Lanka sem úrskurðaður hefur verið í gæsluvarðhald til 18. mars næstkomandi vegna gruns um mansal hefur ítrekað fengið fólk hingað til lands frá Sri Lanka til að vinna fyrir sig. Maðurinn var handtekinn á fimmtudag á heimili sínu í Vík í Mýrdal, grunaður um vinnumansal.
Tvær konur fundust á heimili mannsins, einnig frá Sri Lanka, og hafa þær stöðu sem þolendur mansals.
Maðurinn fékk fólk til að vinna fyrir sig hjá fyrirtækinu Vonta International, sem er undirverktaki Icewear á Vík í Mýrdal. Konurnar saumuðu fatnað fyrir fyrirtækið. Ágúst Þór Einarsson, framkvæmdastjóri Icewear, segir í samtali við Fréttablaðið að hann málið tengist fyrirtækinu ekki beint og hann vilji því ekki tjá sig um málið.
Icewear rifti samningnum við Vonta International í gær eftir að málið komst upp.
En þetta er ekki í fyrsta sinn sem lögreglan hefur afskipti af manninum frá Sri Lanka. Í desember síðastliðnum fór lögreglan á staðinneftir að ábendingar bárust um að fólk væri þar í vinnu sem ekki hefði atvinnuleyfi og var þeim starfsmönnum vísað úr landi.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurlandi er maðurinn grunaður um mjög alvarleg brot. Hann gæti átt yfir höfði sér allt að 12 ára fangelsi.