Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, er alfarið á móti nýjum búvörusamningum ríkisins við bændur. Hún segist aldrei munu samþykkja málið á Alþingi. Hún setti stöðufærslu á Facebook síðu sína í gær þar sem hún deilir frétt um undirritun samninganna í gær með orðunum: „Eru menn ekki að grínast, aldrei með mínu samþykki á Alþingi Íslendinga.”
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ritari Sjálfstæðisflokksins, tók undir með Ragnheiði í Vikulokunum á Rás 1 í morgun.
„Mér líst mjög illa á þessa samninga. Það er gjörsamlega ótækt að ætla að bæta svona í ríkisstyrki til landbúnaðarins. Þetta er ekki rétta leiðin til að bæta kjör bænda eða annað, sagði hún. „Landbúnaður á ekki að vera jafn mikið ríkisstyrktur og hann er í dag, hvað þá að bæta næstum því milljarði við. Það er út í hött. Ég vona að þetta verði ekki samþykkt á þinginu.”
Katrín Júlíusdóttir, varaformaður Samfylkingar, var líka í Vikulokunum í morgun, og hún sagði að það hefði verið eðlilegra að fá fleiri að borðinu til að gera samningana. Hún vildi sjá betur áhrif samninganna á neytendur.
Nýir búvörusamningar gera það að verkum að útgjöld ríkisins aukast um 900 milljónir á næsta ári. Hækkunin verður þó ekki eins mikil á komandi árum og á að vera að meðaltali um 700 milljónir á ári. Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtakanna, undirrituðu samningana í gær.
Búvörusamningarnir eru yfirgripsmiklir og fela í sér töluvert miklar breytingar á landbúnaðarkerfinu. í þeim felst meðal annars að kvótakerfi í mjólkurframleiðslu og sauðfjárrækt skuli lagt niður. Samningarnir eru til tíu ára. Styrkjum til bænda verður breytt, meðal annars með því að þeir verða ekki bundnir framleiðslu á afurðum eins og áður.