Aðstoðarmaður blæs á gagnrýni
Nýjasta viðbótin í hlaðvarpsflóru Kjarnans, Útvarp Ísafjörður, varð fyrst fjölmiðla í til að næla í viðtal við nýráðinn aðstoðarmann Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra, Ísfirðinginn Gauta Geirsson. Hann hafði verið mikið í umræðunni vikuna áður sökum ungs aldurs og hafði ráðherra verið gagnrýninn fyrir að ráða sér svo reynslulítinn aðstoðarmann. Gauti sagðist alltaf hafa haft mikinn áhuga á utanríkismálum og sagði nauðsynlegt að gefa ungu fólki meiri tækifæri. Hann hætti að versla í H&M eftir að hann heimsótti fataverksmiðju fyrirtækisins í Kambódíu á ferð sinni um heiminn.
Bandaríkin eru flókin
Magnús Jónasson ræddi við Birgi Þór Harðarson í Hlaðvarpinu um forsetakosningarnar í Bandaríkjunum. Magnús er mikill áhugamaður um bandaríska pólitík og er með allt á hreinu sem viðkemur hinu flókna kosningaferli sem er við lýði vestanhafs. Hann fer yfir þann fjölda lýðfræðibreytna sem einkennir Nevada og Norður-Karólínu þegar viðkemur uppskiptingu Demókrata og Repúblikana.
Gaman í vinnunni
Freyr Eyjólfsson, útsendari Kjarnans í París, ræddi við Aðalstein Leifsson, forstöðumann EFTA, á kaffihúsi í Genf. Í nýjasta þættinum af Undir smásjánni spjalla þeir um brennandi áhuga Aðalsteins á fagi sínu, en hann er einnig lektor í samningatækni við Háskólann í Reykjavík. Hann segir samninga ekkert annað en sameiginlega ákvarðanatöku - það sé hins vegar leiðin að þeim sem sé stundum flókin.
FBI vill inn í iPhone
Apple komst enn á ný í fréttir í vikunni þegar fregnir bárust af baráttu fyrirtækisins við bandarísku Alríkisrlögregluna, FBI, um aðgang yfirvalda að gögnum á iPhone símum. Í Tæknivarpinu fengu þeir Gunnlaugur Reynir og Andri Valur hann Jón Heiðar Þorsteinsson, frá Stuckiniceland.com og Advania, í heimsókn þar sem þeir ræddu meðal annars þetta mál.
Sigmundarleysi Samfylkingarinnar
Karlar eru körlum bestir. Þetta er niðurstaðan sem þau Þórunn Elísabet Bogadóttir og Þórður Snær Júlíusson, aðstoðarritstjóri og ritstjóri Kjarnans, komust að þegar þau ræddu í Kviku vikunnar hina endalausu skekkju í kynjahlutföllum innan fjármálakerfisins. Þau krufu líka vanda Samfylkingarinnar og telja að flokkurinn þurfi að finna „sinn Sigmund Davíð“ eins og Framsóknarflokkurinn gerði forðum þegar Sigmundur var kjörinn formaður. Leiðin lá upp á við fyrir Framsóknarflokkinn eftir það.