Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fer hörðum orðum um fjóra fræðimenn við Háskóla Íslands í færslu sem hann birtir á Facebook-síðu sinni. Einn þeirra er Gylfi Magnússon, fyrrverandi ráðherra, og kallar Sigmundur Davíð hina fræðimennina samherja hans „sem vilja þó líklega allir láta kalla sig óháða sérfræðinga“. Fræðimennirnir eiga það sameiginlegt að hafa gagnrýnt Sigmund fyrir ummæli hans um Háskóla Íslands.
Sigmundur Davíð sagði fyrir helgi að ákvörðun skólans um að flytja íþróttafræðinám á Laugarvatni til Reykjavíkur hlyti að kalla á að fjárveitingum verði í auknum mæli beint til skóla á landsbyggðinni á þeirra eigin forsendum. Ákvörðun HÍ myndi mögulega gera út af við hugmyndir um sameiningar eða aukið samstarf skólans við menntastofnanir á landsbyggðinni. Þetta hefur verið gagnrýnt og þessu svarað, meðal annars skrifaði rektor HÍ, Jón Atli Benediktsson, grein um málið þar sem hann fór yfir forsendur ákvörðunarinnar.
Gylfi Magnússon, dósent í viðskiptafræði og fyrrverandi viðskiptaráðherra, er meðal þeirra sem hafa gagnrýnt Sigmund Davíð. „Þetta er svo yfirgengilegt að það er vart annað hægt en telja dagana til loka kjörtímabilsins,“ sagði hann á Facebook síðu sinni. Aðrir fræðimenn hafa lagt orð í belg á síðu hans og annars staðar, og Vísir fjallaði um gagnrýni þeirra í frétt þar sem sagt er að akademían sé æf yfir orðum Sigmundar Davíðs. Aðrir sem nefndir eru í fréttinni eru doktor Magni Þór Pálsson, Helgi Gunnlaugsson prófessor, Eiríkur Rögnvaldsson prófessor og Magnús Karl Magnússon prófessor.
„Facebookskrif fjórmenninganna hafa orðið tilefni a.m.k. tveggja frétta. Í annarri þeirra var fullyrt að ummælin hefðu fallið í grýttan jarðveg og var þá væntanlega verið að vísa í jarðveginn á Melunum í Vesturbæ Reykjavíkur. Í hinni var fullyrt að þeir félagar (eða Akademían eins og þeir kalla sig að mati fyrirsagnarhöfundar) væru æfir,“ skrifar Sigmundur Davíð.
Hann segist aðeins hafa verið að benda á hið augljósa í ummælum sínum um HÍ. „Það nægði þó ráðherranum fyrrverandi og þremur facebook vinum hans til að verða „æfir“, svo vitnað sé í fréttina, og senda frá sér furðulegar yfirlýsingar á borð við að þetta fæli í sér hótanir í garð HÍ og minnti á stjórnarfar í alræðisríkjum!“
Hann segir viðbrögðin hafa verið ofsafengin, við einfaldri ábendingu um mikilvægi þess að efla menntun um allt land. „Viðhorfið virðist vera það að landsbyggðarfólk eigi bara að sjá um að veiða fisk og skila svo tekjunum í tvö póstnúmer í Reykjavík.“
Stutt hafi verið við bakið á HÍ og öðrum menntastofnunum í Reykjavík. „En það veitir ekki af því að styðja líka við bakið á menntun utan höfuðborgarinnar og ég vona að það raski ekki ró fjórmenninganna í „Akademíunni“ enn frekar ef ég bendi á að það sama á við um heilbrigðismál, samgöngumál, stjórnsýslu og jafnvel fleira.“
Hann segir að lokum að það sé fráleitt að stilla því þannig upp að allt það fjármagn sem sett er í menntastofnanir eða aðra innviði á landsbyggðinni sé tekið af þeim sem starfa í 101 Reykjavík. „Uppbygging á landsbyggðinni gagnast Reykjavík og öfugt. Ísland er eitt land og það er stærra en Melarnir í Vesturbænum.“