Til stendur að sameina Þjóðminjasafnið og Minjastofnun Íslands í eitt. Forsætisráðuneytið tilkynnir þetta formlega í dag eða á næstu dögum.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra setti saman stýrihóp síðasta haust til þess að kanna kosti og galla sameiningarinnar og hefur sá hópur nú komist að þeirri niðurstöðu að æskilegt sé að sameina stofnanirnar, samkvæmt heimildum Kjarnans. Capacent gerði einnig fýsileikakönnun og ræddi við hagsmunaaðila.
Minjastofnun Íslands er þriggja ára gömul stofnun, en hún varð til þann 1. janúar 2013 þegar Fornleifavernd ríkisins og Húsafriðunarnefnd sameinaðist í eitt.
Starfsmannafundir haldnir í dag
Forstöðumenn Þjóðminjasafnsins og Minjastofnunar eru boðaðir á fund í ráðuneytinu í hádeginu í dag. Fundað verður með öllum starfsmönnum Þjóðminjasafns í dag klukkan 14 og Minjastofnunar klukkan 15, þar sem staðan í málinu verður tilkynnt.
Margrét Hallgrímsdóttir, forstöðumaður Þjóðminjasafns Íslands, undirstrikar að hún hafi enn ekki fengið formlega tilkynningu um málið, en sé á leið á fund í ráðuneytinu í hádeginu. Hún er á þeirri skoðun að það sé rétt að skoða sameiningu og telur margt benda til þess að hún efli starfsemina.
„Ég fagna líka hversu faglega hefur verið staðið að þessu ferli. Þetta er ekki skyndiákvörðun og hefur verið í umræðunni síðan 2001,” segir hún. „Ég styð þetta heilshugar út frá málefninu.” Margrét segir að talað hafi verið um að með sameiningu eigi ekki að þurfa að koma til uppsagna meðal starfsfólks.
Kristín Huld Sigurðardóttir, forstöðumaður Minjastofnunar Íslands, vildi ekki tjá sig um málið fyrr en fundurinn væri afstaðinn með ráðuneytinu.
Fræðigeirinn mótmælir harðlega
Forleifafræðingafélag Íslands er alfarið á móti sameiningunni og lýsir yfir miklum áhyggjum vegna þess. Sameiningin auki við enn meiri óstöðugleika á sviði menningarmála í landinu.
Á heimasíðu félagsins kemur fram að formaðurinn, Sólrún Inga Traustadóttir, hafi verið kölluð á fund Capacent í byrjun febrúar, ásamt fleiri forsvarsmönnum úr fræðigeiranum, þar sem kostir og gallar sameiningarinnar voru ræddir. Auk Sólrúnar voru á fundinum Bjarni F. Einarsson, frá Fornleifafræðistofunni, Albína Pálsdóttir, frá Íslenskum fornleifarannsóknum, Elín Ósk Hreiðarsdóttir, frá Fornleifastofnun Íslands, Bergsveinn Þórsson, formaður Félags íslenskra safna og safnmanna, Ágústa Kristófersdóttir, forstöðumaður Hafnarborgar og Þóra Björk Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Safnaráðs. Var það einróma álit fundarins að sameining stofnananna væri slæm hugmynd, segir á heimasíðu Forleifafélagsins.