Mikill vöxtur hefur verið í gagnaverum á Íslandi undanfarið. Samkvæmt mati Landsvirkjunar tvöfaldaðist eftirspurn í þeim geira í fyrra og er orkunotkun nú um 30 MW. Mörg gagnaversfyrirtæki hafa sýnt áhuga á að koma til Íslands en ávallt ríkir mikil leynd yfir slíkum verkefnum og fyrirtækin eru ekki mikið fyrir að tjá sig opinberlega um hvað þau eru að gera. Þetta er meðal þess sem kom fram í máli Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunar, á fundi með fjölmiðlum og greiningardeildum á mörkuðum í morgun.
Hörður sagði gagnaverin vera að koma sterk inn, og iðnaðurinn væri kominn til að vera hér á landi. Það sé ánægjulegt og kominn sé sterkur undirliggjandi vöxtur í gagnaverunum. Þau séu áhugaverð viðbótariðngrein, sem muni svo í framtíðinni nýta meiri orku en áliðnaðurinn á heimsvísu.
Hörður sagðist einnig hafa miklar áhyggjur af flutningskerfi raforku og nefndi meðal annars í því samhengi að það væri erfitt að fara með gagnaver út af stór-Reykjavíkursvæðinu einmitt vegna flutningskerfisins.
Vilja fleiri inn á markaðinn
Mikil umframeftirspurn er eftir raforku á Íslandi og Landsvirkjun annar ekki heildareftirspurn iðnaðar. Það þýddi þó ekki að rétt væri að leggja saman öll verkefni sem menn vildu ráðast í og reyna að mæta þeirri eftirspurn. „Sá tími er liðinn á Íslandi og ég held að hann komi aldrei aftur,“ sagði Hörður. Það sé sama hversu mikið sé virkjað, það verði alltaf umframeftirspurn eftir raforku.
Hörður sagði að það væri kannski óvenjulegt á samkeppnismarkaði, en Landsvirkjun vill sjá að það fari fleiri aðilar í það að byggja virkjanir hér á landi. Fyrirtækið er það eina sem hefur byggt virkjanir á landinu frá árinu 2008. Að auki vilji fyrirtækið sjá að fleiri kostir verði settir í nýtingarflokk rammaáætlunar, en þess væri beðið að sjá hvaða tillögum verði skilað þess efnis í vor.
Hörður segir að það sé einnig mjög óvenjulegt að fyrirtækið standi í tveimur virkjunum á sama tíma, en bæði Þeistareykjavirkjun og stækkun Búrfellsvirkjunar eru nú í bígerð. Hann sagði að bundnar væru vonir við það hjá Landsvirkjun að Hvammsvirkjun yrði næsta virkjun sem ráðist yrði í að stækkun Búrfellsvirkjunar lokinni, en áætlað er að sú virkjun verði komin í rekstur vorið 2018.