Vonast er til þess að gengið verði frá endanlegum þjónustusamningi milli mennta- og menningarmálaráðuneytisins og Ríkisútvarpsins um mánaðamótin, sem eru í næstu viku. Þetta kemur fram í svari Margrétar Magnúsdóttur, skrifstofustjóra RÚV, við fyrirspurn Kjarnans um málið.
Gerð þjónustusamningsins hefur verið á lokametrunum um nokkurt skeið. Í janúar sagði Þorgeir Ólafsson, upplýsingafulltrúi mennta- og menningarmálaráðuneytisins, að strangt til tekið hefði átt að vinna þessa vinnu árið 2013, en þá hafi ekki verið talin nein sérstök þörf á því. Ekki verði hins vegar gerðar miklar breytingar á samningnum. „Lögin eru svo afgerandi að það er lítið hægt að gera. Þau gefa ekki mikið svigrúm til breytinga,” segir hann. „Þetta snýst mest megnis um fjármálin og þess háttar. En það verður spennandi að sjá hver niðurstaðan verður. Nú er ekkert annað að gera en að hinkra nokkra daga og sjá hverju fram vindur.”
Miklar umræður fóru af stað um RÚV í lok síðasta árs þegar frumvarp Illuga Gunnarssonar menntamálaráðherra um endurskoðun á lækkun útvarpsgjalds fékk ekki stuðning ríkisstjórnarinnar. Magnús Geir Þórðarsson útvarpsstjóri sagði þá að ef útvarpsgjaldið lækki dragist tekjur RÚV saman um 500 milljónir króna á þessu ári. Þá geti stofnunin ekki uppfyllt þjónustusamning sinn við ríkið.
Magnús Geir hefur líka upplýst að það hafi verið skýr vilji Illuga að útvarpsgjald yrði ekki lækkað. Þegar hann fór fyrir fjárlaganefnd rétt fyrir jól sagði hann: „Þetta er auðvitað algjörlega galið, algjörlega galin staða fyrir okkur að vera í og fyrir marga aðra. Við erum búin að vera að vinna í átta mánuði eftir plani sem lagt var upp af ráðherra og ráðuneyti og við erum að gera áætlanir þar sem þetta er fast í hendi. Við viljum fá botn í þetta, þannig að fjármögnunin sé tryggð, í það minnsta til fjögurra ára svo við þurfum ekki að standa í þessu á hverju einasta ári.“