Píratar munu hafna aðkomu að ríkisstjórn þar sem þingmenn eru einnig ráðherrar. Það verður gert að „algjörri og ófrávíkjanlegri kröfu af hálfu Pírata um stjórnarsamstarf að þessi háttur verði hafður á.“ Þetta kemur fram í ályktun Pírata um samskipti ráðherra og Alþingis, sem var samþykkt með miklum meirihluta atkvæða í kosningakerfi Pírata í gær. 115 voru fylgjandi þessu en 7 á móti.
„Víða erlendis er það viðtekin venja að ráðherrar sinni engum öðrum störfum; nánar tiltekið, að á þeim hvíli hvorki skyldur né réttindi þingmanna. Þessi venja hefur ekki náð fótfestu á Íslandi, þó ekkert í stjórnarskrá komi í veg fyrir að henni sé fylgt. Afleiðing þessa er að forysta bæði Alþingis og ríkisstjórnar - löggjafar- og framkvæmdavalds - er í höndum sömu einstaklinganna.“
Ekki er tekið fram hvort fylgja eigi þessu eftir með því að fá utanþingsráðherra eða með því að krefjast þess að ráðherrar víkji úr þingsætum sínum á meðan þeir gegna ráðherraembættum. „Vel má hugsa sér að í einni ríkisstjórn megi finna hvort tveggja.“
Samkvæmt tillögunni er stærsta og veigamesta röksemdin fyrir þessu það að hlutverk ríkisstjórnar sé að framfylgja vilja þingsins, og hlutverk þingsins sé að fylgjast með því að ríkisstjórn fylgi reglum. „Þegar engin aðgreining er á forystu ríkisstjórnar og þingsins verður nær ómögulegt að gera raunverulegan greinarmun á því hvort það er þingið eða stofnanir framkvæmdavaldsins sem ráða för.“
Þá sé það í raun þannig að þingmönnum sé fækkað um jafn marga og nemur ráðherrafjölda hverju sinni, vegna þess að ráðherrastörf séu svo viðamikil að útilokað sé að sinna bæði þeim og þingskyldum með viðunandi hætti.
Píratar segja þetta eiga við hvort sem þeir yrðu leiðandi í stjórnarsamstarfi eða ekki. „Þó er vert að hafa í huga að orðalagið útilokar ekki að Píratar verji minnihlutastjórn annarra flokka, sem skipuð er þingmönnum, falli.“