Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, segir að það sé „stórkostlega mikil rangfærsla“ hjá samflokksmanni hennar, þingmanninum Helga Hrafni Gunnarssyni, að tillaga hennar um styttra þing á næsta kjörtímabili hafi verið felld á aðalfundi. „Henni var breytt smávægilega þar sem ákveðið var að hafa það opnara en ella að hafa þetta lengur en 9 mánuði, þetta er þó samkvæmt tillögunni ekki ályktun um lengra tímabil en eitt þing.“
Helgi Hrafn er í viðtali í Kjarnanum í dag þar sem hann sagði að það væri misskilningur í gangi um að Píratar vilji styttra þing á næsta kjörtímabili. Það sé Birgitta sem sé á þeirri skoðun, en tillaga hennar um málið hafi verið felld á aðalfundi og hann sé ekki sammála henni í málinu.
„Helgi Hrafn virðist algerlega gleyma því að þetta er bara ekki tillagan mín heldur tillaga sem hlaut langmestan stuðning frá félögum okkar í kosningakerfinu,“ segir Birgitta á Facebook-síðu sinni. Hún segist svo hafa áhyggjur af málinu og að hún hafi útrétt sáttahönd og beðið Helga Hrafn um að fara ekki í viðtöl um ágreiningsmál. Hann hafi því miður ekki virt það.
Sjá má færslu Birgittu hér að neðan, og viðtalið við Helga Hrafn má lesa hér.