Nefnd sem Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, skipaði um búvörusamninga í október 2014 var aldrei kölluð saman. Þetta kom fram í máli Ragnheiðar Ríkharðsdóttur, þingflokksformanns Sjálfstæðisflokksins, í þættinum á Sprengisandi í morgun.
„Ef ég man rétt þá, í október 2014, fengu allir þingflokkar bréf frá ráðherra um að skipa fulltrúa sína í nefnd um búvörusamninga. Að minnsta kom sú tillaga inn til okkar þingflokks sjálfstæðismanna og flokkurinn skipaði Harald Benediktsson og Ragnheiði Ríkharðsdóttur í þá nefnd. En sú nefnd var aldrei kölluð saman og ekki get ég svarað af hverju,“ sagði Ragnheiður.
Ragnheiður sagði einnig að í samfélaginu væri uppi krafa um gagnsæi og aukið samráð og framkvæmd búvörusamninga væri ekki í anda þess.
Hún sagði engan vera að tala um að hafna búvörusamningnum, en það þyrfti að gera á honum breytingar. Hún muni ekki samþykkja hann óbreyttan í þinginu.
Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður VG, var einnig í þættinum. Hún sagðist ekki muna hvort þingflokkur VG hefði einnig fengið skipunarbréf um nefndina.