Ragnheiður Elín Árnadóttir, ráðherra ferðamála, „er svona með þeim verklausari í sögunni“ að mati Svandísar Svavarsdóttur, þingflokksformanns Vinstri grænna. Svandís gagnrýndi Ragnheiði Elínu harðlega fyrir aðgerðaleysi í málefnum ferðamála í þættinum á Sprengisandi í dag.
„Hún í raun og veru strandaði með náttúrupassann á sínum tíma og viðbragðið við því, þegar hún náði ekki sínu fram í gegnum Alþingi, var að stofna þetta furðulega batterí sem heitir stjórnstöð ferðamála og enginn skilur um hvað á að snúast – sem er einhvers konar samráðsvettvangur fjögurra ráðherra sem eru saman í ríkisstjórn og eiga að tala saman hvort sem er, og stofnana sem eiga að hafa samráð hvort sem er. En þarna er einhver maður sem hefur hærra kaup en velflestir í stjórnarráðinu og er að skila hverju?“ sagði Svandís meðal annars. Hún sagði nálgunina á þetta stóra verkefni, vera algjörlega með ólíkindum.
Hún sagði það allra mikilvægasta í ferðamannamálum væri að grípa til varna fyrir náttúru Íslands, með því að stofna þjóðgarð á hálendi Íslands.
„Það er dapurlegt að ráðherra ferðamála skuli algjörlega skila auðu í þessu máli, mér finnst það eiginlega til háborinnar skammar.“
Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, var líka í þættinum. Sigurjón Magnús Egilsson sagði við hana að það virtist stefna í vandræði í málaflokknum, sem væri á borði hennar flokks, og sagði að það sæust litlar framkvæmdir eða viðbrögð. „Já því miður þá virðist það nú vera svo,“ svaraði Ragnheiður. Hún sagðist samt einnig spyrja sig að því hvers vegna sveitarfélög taki ekki til hendinni sjálf og hefji gjaldtöku á svæðum, til dæmis í Reynisfjöru þar sem hægt væri að gera bílastæði og rukka fólk inn.
„Við erum búin að ræða þetta allt þetta kjörtímabil og líka síðasta kjörtímabil. Það er dapurt að við séum komin svo langt og ekki búin að gera meira en raun ber vitni,“ sagði Ragnheiður.