Fjórir íslenskir hælisleitendur eru skráðir í kerfi Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og einn Íslendingur er með stöðu flóttamanns. Þetta kemur fram á heimasíðu Flóttamannastofnunarinnar og er einnig birt í yfirlitsskýrslu þeirra. Svo virðist sem einn hafi bæst á listann frá árinu 2011, en þá voru þrír hælisleitendur skráðir í kerfinu og einn flóttamaður, samkvæmt skýrslu stofnunarinnar fyrir það ár.
Íslensk yfirvöld hafa engar upplýsingar
Ómögulegt virðist vera að nálgast upplýsingar hjá íslenskum yfirvöldum um hvað sé hér um að ræða.
Urður Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins, segir upplýsingarnar hafa vakið furðu hjá ráðuneytinu. Hún benti á Flóttamannastofnunina sjálfa til að fá upplýsingar. Engin svör hafa borist þaðan.
Jóhannes Tómasson, upplýsingafulltrúi innanríkisráðuneytisins, segir ráðuneytið engar upplýsingar hafa um einstaklingana og vísaði á ríkislögreglustjóra.
Jón F. Bjartmarz, hjá embætti ríkislögreglustjóra, vísaði á Útlendingastofnun.
Þórhildur Ósk Hagalín, upplýsingafulltrúi Útlendingastofnunar, segir stofnunina engar upplýsingar hafa.
„Það er meginregla í flóttamannarétti að yfirvöldum í landi þar sem einstaklingur sækir um hæli er óheimilt að hafa samband við heimaland umsækjandans,” segir Þórhildur í skriflegu svari til Kjarnans. „Yfirvöld, til dæmis í Sýrlandi, Íran og annars staðar, fá þannig engar upplýsingar um einstaklinga sem koma frá þessum löndum og sækja um hæli á Íslandi. Að sama skapi hafa íslensk yfirvöld, þar með talið Útlendingastofnun, engar upplýsingar um Íslendinga sem sækja um hæli í öðrum löndum.”
Eins og áður segir hafa enn engin svör borist Kjarnanum frá Flóttamannastofnun SÞ við fyrirspurninni um hvar þetta fólk sé niðurkomið.
Skýrslu Flóttamannastofnunar frá 2011 má nálgast hér.
Upplýsingar um Ísland innan Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna má sjá hér.