FÍB, félag íslenskra bifreiðaeigenda, segir að tryggingafélög stundi sjálftöku og gripdeildir úr sjóðum sem eru í raun í eigu viðskiptavina þeirra. Félögin, VÍS, TM og Sjóvá, séu að fara að tæma bótasjóði til að greiða út 9,5 milljarða króna arð á næstu dögum. Þessir sjóðir séu til vegna þess að tryggingafélögin hafi verið með uppsprengd iðgjöld af ofáætluðum tjónum.
FÍB hefur sent áskorun á Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra að hlutast til um þessi mál, þar sem fjármálaeftirlitið er sakað um vanrækslu í málinu.
„Stjórnvöld og almenningur geta lítið gert til að hafa áhrif á græðgi eigenda tryggingafélaganna annað en fordæma þessa sjálftöku. Undir eðlilegum kringumstæðum væri haldreipi í Fjármálaeftirlitinu. Svo er þó ekki. FME virðist eingöngu hugsa um hag fjármálafyrirtækja og fjárfesta. Ljóst er að stjórnvöld þurfa að hrista upp í Fjármálaeftirlitinu með afgerandi hætti til að það átti sig á skyldum sínum við almenning,“ segir í bréfinu frá FÍB til Bjarna.
Það sé óþolandi að tryggingafélögin fái að eigna sér fjármuni sem þau hafi hirt af fólki með ofteknum iðgjöldum í skjóli fákeppni. Fjármálaeftirlitið hafi ríkar heimildir til að hlutast til um fjármál og rekstur tryggingafélaga, og geti skipað þeim að endurgreiða tryggingatökum eign þeirra í bótasjóðnum eða nota fjármunina til að lækka iðgjöld næstu árin. Ef ekkert verði gert verði það hins vegar í annað skipti á einum áratug sem stofnunin horfi aðgerðalaus á eigendur tryggingafélaga tæma bótasjóði sem þeir eigi ekki.
Í nýrri greiningu frá Capacent, sem Kjarninn greindi frá á dögunum, kemur fram að næstu ár gætu verið krefjandi fyrir tryggingarfélögin, þar sem ekki sé hægt að ganga að því vísu, að ávöxtun á eignamörkuðum verði jafn góð og hún hefur verið að undanförnu. Verðbréfamarkaðir séu oft aðeins á undan hagsveiflunni, eins og erlendar rannsóknir sýni. Tryggingarfélögin gæti þurft að búa sig undir erfiðari rekstrarskilyrði en hafa verið fyrir hendi undanfarið.
Tillögur, sem bornar verða undir aðalfundi þessara félaga gera í einhverjum tilfellum ráð fyrir arðgreiðslum töluvert umfram árlegan hagnað. Mesta arðgreiðslan er fyrirhuguð hjá VÍS, um fimm milljarðar króna, en hagnaðurinn í fyrra var rúmlega tveir milljarðar.