Fæðingarorlofið verður lengt í tólf mánuði úr níu mánuðum, þannig að hvort foreldri um sig eigi fimm mánaða rétt til orlofs og tveir mánuðir verði sameiginlegur réttur sem annað hvort getur notað. Þetta eru tillögur starfshóps um framtíðarstefnu í fæðingarorlofsmálum, sem skilaði tillögum sínum til Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, í dag.
Þá verða hámarksgreiðslur úr fæðingarorlofssjóði hækkaðar í 600 þúsund krónur á mánuði, en hámarksgreiðslan í dag er 370 þúsund krónur. Einnig er lagt til að fyrstu 300 þúsund krónurnar af viðmiðunartekjunum verði óskertar, og af tekjum umfram 300 þúsund fái foreldrar 80%.
Nefndin leggur einnig til að skipuð verði verkefnisstjórn með fulltrúum ríkis og sveitarfélaga í dagvistunarmálum barna að loknu fæðingarorlofi. Leita eigi leiða svo unnt sé að bjóða öllum börnum dvöl á leikskóla við eins árs aldur.
Lögð er áhersla á það að greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði verði hækkaðar strax í byrjun næsta árs, til þess að hægt sé að ná markmiðum um að foreldrar og þá helst feður fullnýti rétt sinn til fæðingarorlofs.
Lenging fæðingarorlofsins á ekki að hefjast fyrr en 1. janúar 2019 og á að vera komin að fullu til framkvæmda 2021, samkvæmt tillögum hópsins. Maríanna Traustadóttir, fulltrúi ASÍ í starfshópnum, segir að ASÍ hefði viljað sjá breytingunum hraðað. Lengingin ætti að koma mun fyrr til framkvæmda en áætlað er nú.
Fjármála- og efnahagsráðuneytið setur fyrirvara um tillögur starfshópsins þótt það styðji meginmarkmiðin. Liður í því að tillögurnar verði að veruleika sé að fyrirkomulag fjármögnunar sé sjálfbært og tekið sé mið af lögum, sem gera ráð fyrir því að fæðingarorlofssjóður sé fjármagnaður með tryggingagjaldi. Þess vegna setur ráðuneytið fyrirvara.
Samtök atvinnulífsins tala einnig um tryggingagjaldið í sinni afstöðu og gerir kröfu um að breytingarnar sem fyrirhugaðar eru rúmist innan tryggingagjaldsins eins og það er núna, ekki komi til greina að hækka gjaldið.
Samtökin eru jafnframt mótfallin því að fæðingarorlofið verði lengt í 12 mánuði, vegna aukins kostnaðar og lengri fjarveru foreldra frá störfm. Þau segja alls óljóst að slík lenging muni stuðla að jafnrétti kynjanna. SA vilja heldur að auka eigi dagvistunarþjónustu sveitarfélaganna til að brúa það bil sem til verður eftir að fæðingarorlofi lýkur og þangað til börn komast í dagvistun.