Báðir foreldrar barna sem fæðast andvana fá þriggja mánaða fæðingarorlof frá og með deginum í dag. Alþingi samþykkti lög þess efnis með 45 einróma atkvæðum á þingi fyrr í dag.
Hingað til hafa foreldrar átt sameiginlegan rétt til þriggja mánaða orlofs ef andvanafæðing á sér stað eftir 22 vikna meðgöngu. Einróma stuðningur var við það að lengja rétt foreldra þannig að hvort um sig fá sjálfstæðan rétt til þriggja mánaða fæðingarorlofs. Gamla fyrirkomulagið hafi ekki veitt foreldrum nægilegt svigrúm til þess að jafna sig eftir missi.
Frumvarp um breytingar á lögunum var lagt fram í haust í annað skipti, en Páll Valur Björnsson, þingmaður Bjartrar framtíðar, var fyrsti flutningsmaður þess. Auk hans voru flutningsmenn hinir fimm þingmenn Bjartrar framtíðar, Katrín Jakobsdóttir formaður VG, Helgi Hrafn Gunnarsson kafteinn Pírata og Össur Skarphéðinsson þingmaður Samfylkingarinnar. Í frumvarpinu var gert ráð fyrir því að fæðingarorlofið yrði lengt í fullt fæðingarorlof, og var sagt að varla væri hægt að halda því fram að munur sé á því að eignast andvana barn eða að missa barn skömmu eftir fæðingu. Ef barn deyr skömmu eftir fæðingu fá foreldrar fullt fæðingarorlof, sem er þrír mánuðir hvort foreldri um sig og þrír mánuðir sem eru sameiginlegir. „Í báðum tilvikum þurfa foreldrarnir að takast á við sambærilegt sorgarferli, til viðbótar því álagi sem fylgir fæðingu barns. Hið andlega bataferli er af sama meiði hvort sem barnið lést í móðurkviði eða stuttu eftir fæðingu,“ sagði í greinargerð með frumvarpinu.
Við meðferð málsins hjá velferðarnefnd sameinaðist öll nefndin um að gera breytingar þannig að hvort foreldri um sig fái þriggja mánaða orlof. Nefndin féllst á að það væri ekki heppilegt að það væri sex mánaða munur á orlofinu eftir því hvort barn deyr rétt fyrir eða eftir fæðingu.
Páll Valur Björnsson var einnig fyrsti flutningsmaður þingsályktunartillögu sem var samþykkt á þingi í dag, en hún kveður á um að 20. nóvember hvers árs verði helgaður fræðslu um mannréttindi barna í skólum landsins. Talið er að það sé einsdæmi að tvö mál þingmanns minnihluta fáist samþykkt á sama degi.