Landsbankinn ætlar að fara í mál vegna sölunnar á eignarhlut bankans í Borgun hf. Bankinn hefur falið lögmönnum að undirbúa málsókn „til þess að endurheimta þá fjármuni sem bankinn fór á mis við í viðskiptunum.“ Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum.
Samkvæmt upplýsingum frá bankanum hefur athugun innan hans gefið til kynna að tilefni sé til þess að undirbúa málsókn. Þessi vinna hafi staðið yfir um nokkurt skeið. Steinþór Pálsson bankastjóri Landsbankans greindi fyrst frá því í Kastljósi á Rúv um miðjan febrúar að Landsbankinn væri að kanna hvort kæra ætti stjórnendur Borgunar vegna málsins.
Þá strax vísuðu stjórnendur Borgunar því á bug og sögðu „alvarlegar ásakanir bankastjórans um meint lögbrot annarra í þessu máli má sjálfsagt skoða í ljósi þeirrar erfiðu stöðu sem Landsbankinn er kominn í. Stjórnendur Borgunar frábiðja sér með öllu að vera gerðir að blórabögglum í þessu máli.“
Eins og Kjarninn hefur ítrekað fjallað um var 31,2 prósenta hlutur í Borgun seldur bak við luktar dyr til valinna fjárfesta, meðal annars stjórnenda Borgunar, undir lok ársins 2014. Hluturinn var seldur á 2,2 milljarða króna og heildarvirði félagsins var metið á um sjö milljarða. Í febrúar var virði fyrirtækisins talið allt að 26 milljarðar króna. Eftir á hefur komið í ljós að Borgun ætti rétt til greiðslna vegna valréttar í tengslum við samruna Visa Inc. og Visa Europe ef hann yrði virkjaður. Landsbankinn hefur sagt að hann hafi ekki verið upplýstur um þennan valrétt. Því hefur Borgun hins vegar vísað á bug.
Borgun býst við því að fá 33,9 milljónir evra, um 4,8 milljarða króna, í peningum þegar Visa Inc. greiðir fyrir Visa Europe. Auk þess fær Borgun, líkt og aðrir leyfishafar innan Visa Europe, afhent forgangshlutabréf í Visa Inc. að verðmæti 11,6 milljónir evra, eða um 1,7 milljarðar króna. Auk þess mun Visa Inc. greiða leyfishöfum afkomutengda greiðslu árið 2020 sem mun taka mið af afkomu starfsemi Visa í Evrópu á næstu fjórum árum, en hlutdeild Borgunar af þeirri fjárhæð mun ráðast af viðskiptaumsvifum Borgunar sem hlutfall af heildarviðskiptaumsvifum allra seljenda hlutabréfanna á þessum 4 árum.