Matthías Imsland, aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra, segist ekki þekkja neinn framsóknarmann sem beri traust til Vilhjálms Bjarnasonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins. Þetta segir Matthías á Facebook-síðu sinni.
Hann deilir þar frétt Vísis um gagnrýni Vilhjálms á Sigmund Davíð, fyrir að hafa ekki greint frá félagi eiginkonu sinnar á Tortóla. Vilhjálmur sagði meðal annars að málið rýri traustið milli stjórnarflokkanna.
„Finnst nú eiginlega pínu fyndið að í hvert skipti sem Villi gagnrýnir Framsókn þá er því slegið upp. Svona til upplýsinga þá þekki ég nú engan framsóknarmann sem ber traust til Vilhjálms,“ segir Matthías á Facebook.
Vilhjálmur var einnig gestur í Vikulokunum á Rás 1 í morgun og sagði þá mjög óþægilegt fyrir Sjálfstæðisflokkinn að standa andspænis þessu máli. Sigmundur hafi setið beggja vegna borðsins í tengslum við vinnu við uppgjör föllnu bankanna. „Það er eins og menn skilji ekki vanhæfi og hagsmunatengsl,“ sagði hann. Í ýmsum málum sé hangið á formsatriðum eins og að lög hafi ekki verið brotin. Alltaf eigi að upplýsa um hagsmunatengsl. „Auðvitað rýrir þetta traust mitt á hinum flokknum í þessu samstarfi.“