Bankasýsla ríkisins auglýsir í dag eftir einstaklingum til að sitja í stjórnum fjármálafyrirtækja sem stofnunin fer með eignarhlut ríkisins í. Fyrirtækin sem um ræðir eru Landsbankinn, Íslandsbanki, Arion banki og Sparisjóður Austurlands.
Auglýsingin kemur í kjölfar þess að fimm af sjö bankaráðsmönnum í Landsbankanum tilkynntu í vikunni að þeir ætli ekki að gefa áfram kost á sér í bankaráðið vegna Borgunarmálsins. Stjórn Bankasýslunnar mun því kjósa að minnsta kosti fimm nýja bankaráðsmenn í bankanum, og stefnt er að því að það verði gert á aðalfundi bankans þann 14. apríl næstkomandi.
Á meðal þeirra sem ætla að hætta er Tryggvi Pálsson, formaður bankaráðsins, en aðrir eru Eva Sóley Guðbjörnsdóttir, Jón Sigurðsson, Kristján Davíðsson og Jóhann Hjartarson.
Í tilkynningu sinni um málið í vikunni sögðu bankaráðsmennirnir að stjórnarformaður Bankasýslunnar hafi boðað formann bankaráðs Landsbankans á fund áður en bréf stofnunarinnar vegna Borgunarmálsins var sent til Landsbankans á föstudag. Á þeim fundi, sem forstjóri Bankasýslunnar hafi verið viðstaddur var þeim skilaboðum komið á framfæri að „það eina sem dugi til sé að bankastjóranum verði sagt upp störfum auk þess sem formaður og varaformaður víki. Sú afstaða stjórnar Bankasýslunnar fékkst síðar staðfest. Þarna gengur Bankasýslan skrefi of langt. Það er hlutverk bankaráðs og Fjármálaeftirlitsins að meta hæfi bankastjórans. Við munum ekki taka þátt í skollaleik sem hvorki samrýmist meginreglum félagaréttar né góðum stjórnarháttum. Steinþór Pálsson er stefnufastur og öflugur stjórnandi; hreinn og beinn. Hann er leiðtogi bankans og hefur staðið sig með afbrigðum vel. Við teljum farsælast að hann stjórni bankanum áfram til góðra verka."