Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson hefur í dag, þriðjudaginn 22. mars, sent samúðarkveðjur frá sér og íslensku þjóðinni til Philippe konungs Belgíu vegna þeirra „skelfilegu árása sem í dag voru gerðar á almenning í Brussel,“ eins og segir orðrétt í samúðarkveðju Ólafs Ragnars. Tala látinna er nú komin upp í 34, og eru um 200 særðir, þar af margir alvarlega.
Ólafur Ragnar segir að samúð Íslendinga sé með fjölskyldum þeirra sem biðu bana, ættingjum þeirra og vinum, sem og með þeim sem sárir eru. „Hryðjuverkaárásirnar í dag séu atlaga að lýðræði okkar og siðmenningu, mannréttindum, jafnrétti og frjálsri umræðu. Brýnt sé að standa vörð um mannúð og bræðralag, lýðræði og jafnrétti sem skipa öndvegið í samfélagsskipan okkar, menningu og sögu,“ segir Ólafur Ragnar.
Tvær sprengingar, sem taldar eru hafa verið sjálfsmorðssprengjuárásir, urðu í brottfararsal Zavantem flugvellinum í Brussel um klukkan 8 að staðartíma í morgun, nálægt innritunarborði American Airlines. 14 létust í þeirri árás og um hundrað særðust. Stuttu síðar var þriðja sprengjan í neðanjarðarlestakerfi Brussel, þar sem að minnsta kosti 20 létust og yfir hundrað særðust, þar af margir lífshættulega.
Bretar hafa aukið viðbúnaðarstig í landinu. Útgöngubanni hefur verið lýst yfir í Brussel og eru allar samgöngur og opinberar byggingar lokaðar. Þjóðarleiðtogar hafa send Belgíu samúðarkveðjur og lýst yfir stuðningi.