Meðlimum í íslensku þjóðkirkjunni heldur áfram að fækka, samkvæmt tölum Hagstofunnar um trúfélagaskráningu. Nú eru 71,6% íslensku þjóðarinnar skráð í þjóðkirkjuna, en hlutfallið var 84% fyrir tíu árum síðan.
Fækkunin milli ára nam 4805 einstaklingum á sama tíma og Íslendingum fjölgaði um 3429.
Tæplega 46 þúsund manns eru samtals skráðir í trú- eða lífsskoðunarfélög sem hafa ekki fengið leyfi ráðherra eða standa utan trú- og lífsskoðunarfélaga. Þetta eru um fjögur þúsund einstaklingum meira en í byrjun síðasta árs, þegar tæplega 42 þúsund manns voru skráð þannig.
Stærsta trúfélagið utan þjóðkirkjunnar er kaþólska kirkjan, sem tæplega 12.500 manns eru skráð í. Tæp 10 þúsund eru skráð í Fríkirkjuna í Reykjavík.
Í byrjun árs voru 3087 einstaklingar skráðir í Zúista, en í byrjun ársins í fyrra voru skráðir meðlimir þar fjórir talsins. Um þúsund þessara einstaklinga komu frá þjóðkirkjunni. Zúistar vilja að ríkið felli úr gildi lög sem veitia trú- og lífsskoðunarfélögum forréttindi eða fjárstyrki umfram önnur félög, og vill að gagnagrunnurinn um trúfélagaskráningar verði lagður af. Þeir hafa lofað að endurgreiða meðlimum það fé sem félagið fær frá ríkinu, en það hefur tafist. Gert er ráð fyrir að endurgreitt verði á seinni hluta þessa árs.