Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra birtir á bloggsíðu sinni í morgun langa samantekt sem hann og Anna S. Pálsdóttir, eiginkona hans, hafa skrifað um Wintris-málið. Þar skrifa þau eins konar spurt og svarað um málið. Pistillinn ber heitið „Hvað snýr upp og niður?".
Hjónin segja meðal annars að það sé alrangt að Wintris, félag í eigu Önnu, hafi nokkurn tímann verið í skattaskjóli og raunar sé það ekki einu sinni aflandsfélag. Félagið hafi alltaf verið skattlagt á Íslandi.
„Ástæða þess að fjölskylduarfur Önnu og fjárfestingar eru enn erlendis er fyrst og fremst sú að við töldum ekki æskilegt að eiginkona þingmanns og síðar ráðherra stundaði fjárfestingar hér á landi á sama tíma, m.a. í íslenskum fyrirtækjum," segja hjónin.
Siðferðisleg spurning um að segja ekki frá
Þá undirstrika þau að það hefði verið varasamt að segja frá félaginu. Það hefði „orkað mjög tvímælis siðferðilega ef Sigmundur hefði farið að gera þeim sérstaklega grein fyrir því að eiginkona sín ætti inni pening hjá föllnu bönkunum. Það hefði mátt túlka sem skilaboð um að það ætti að hafa þessar eignir í huga eða verja þær að einhverju leyti í viðureigninni við kröfuhafana.
Sigmundur vildi ekki færa vogunarsjóðunum vopn í hendur með því að barma sér yfir tapi eiginkonunnar. Þess í stað fékk hann í verkið þá sem höfðu verið harðastir í baráttunni árin á undan, fólkið sem skildi vandann best og hafði reynt að útskýra hann fyrir fyrri stjórnvöldum, fjölmiðlum og almenningi."
Þá segjast hjónin alltaf hafa gert ráð fyrir því að upplýsingar um Wintris hafi verið í gögnunum sem íslensk stjórnvöld kaupa um aflandsfélög. Farið er yfir afstöðu Sigmundar til kaupa á þessum gögnum og tekið fram að hann sé fylgjandi því að skattayfirvöld á Íslandi nýti þær leiðir sem í boði eru til að koma í veg fyrir skattsvik.
„Það skipti hins vegar engu máli þar sem skattar hafa alltaf verið greiddir af því á Íslandi og tilvist félagsins því aldrei verið haldið leyndri fyrir skattayfirvöldum. Við höfum aldrei litið á félag Önnu sem aflandsfélag, hvað þá félag í skattaskjóli, enda hafa allir skattar af eignunum og tekjum af þeim verið greiddir á Íslandi skv. íslenskum skattareglum."
Segir hafa fórnað eigin hagsmunum fyrir almenning
Sigmundur var gestur Sigurjóns Magnúsar Egilssonar á Sprengisandi á Bylgjunni í morgun. Þetta er í þriðja sinn sem Sigmundur kemur í viðtal um Wintris-málið; fyrst í forsíðuviðtali í Fréttablaðinu, svo í löngu viðtali við Arnþrúði Karlsdóttur á Útvarpi Sögu og svo nú á Bylgjunni.
Hann hefur ítrekað neitað fréttastofu RÚV um viðtal undanfarna viku og hefur ekki veitt öðrum miðlum en 365 og Útvarpi sögu viðtal.
Hann segir ekki vera bág staða fyrir sig að þurfa að verjast vantrausttillögu á Alþingi og segist ekki hafa fundið fyrir meiri stuðning í neinu máli eins og þessu. Það eina sem hafi komið í ljós sé að konan hans sé samviskusamlegur skattgreiðandi.
Þá segist Sigmundur hafa fórnað eigin hagsmunum fyrir almenning.
Sigurjón spurði Sigmund hvers vegna Anna hafi geymt peningana sína á Tortóla. Sigmundur segir viðskiptabanka eiginkonu sinnar ráðlagt henni að gera þetta. Þá segir hann að það hefði verið óeðlilegt að segja samstarfsfólki sínu frá eignum Önnu.
„Mér hefði þótt það óeðlilegt ef ég ætti að tala um fjármál konunnar minnar. Hefur einhver stjórnmálamaður gert það?" svaraði Sigmundur. Varðandi mögulega vantrauststillögu á þinginu eftir páska sagði Sigmundur: „Ég vona að þau gugni ekki að koma með þetta vantraust. Þetta er kjörið tækifæri til að ræða árangur þessarar ríkisstjórnar."
Sigurjón spurði Sigmund líka út í siðareglur, lögheimilið hans og menntun hans. Þá svaraði Sigmundur:
„Á páskadegi telur þú upp topp tíu atriði af þeim óhróðri sem hefur verið borinn á mig. Það er ekki góð pólitík að stunda svona let them deny it taktík," sagði Sigmundur.