Ríkisstjórn Íslands fjallaði um 20 frumvörp á síðustu tveimur ríkisstjórnarfundunum fyrir páska. Mörg stór frumvörp sem boðað hefur verið að komi fram á þessu þingi voru ekki þar á meðal, og því má búast við því að fleiri frumvörp verði samþykkt á næstu ríkisstjórnarfundum.
Frumvörp sem komast eiga á dagskrá þingsins þurfa að berast fyrir lok mars á skrifstofu Alþingis, sem þýðir í þessari viku. Þing kemur svo saman á ný eftir viku, mánudaginn 4. apríl.
Fram að þessum tveimur fundum fyrir páska hafði ríkisstjórnin afgreitt 11 frumvörp eftir jól. 61 frumvarp hefur komið inn í þingið það sem af er þessum vetri, og þar af eru 34 orðin að lögum. 20 eru til umfjöllunar í nefndum, fimm bíða fyrstu umræðu og tvö bíða þriðju og síðustu umræðu.
Alls eru 145 frumvörp á endurskoðuðum lista ríkisstjórnarinnar yfir frumvörp sem hún ætlaði sér að koma fram með á þessu þingi. Sem fyrr segir eru 61 þeirra komin fram á þingi.
26 þingfundadagar eru eftir af þinginu miðað við starfsáætlun þingsins. Samkvæmt áætluninni á þingið að fara í frí í lok maí. Þó má ljóst vera að ef stjórnarandstaðan leggur fram vantrausttillögu á Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra gæti slík umræða tekið langan tíma.