Formenn og þingflokksformenn stjórnarandstöðuflokkanna ætla að funda klukkan 14 á morgun og ræða mögulega vantrauststillögu á Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og stöðu hans gagnvart þinginu vegna Wintris-málsins.
Formennirnir, þau Árni Páll Árnason Samfylkingu, Birgitta Jónsdóttir Pírötum, Katrín Jakobsdóttir, Vinstri grænum, og Óttarr Proppé, Bjartri framtíð, segjast í samtali við Kjarnann ætla að stilla saman strengi sína og ræða næstu skref í ljósi þeirrar stöðu sem upp er komin með forsætisraðherra.
Fordæmalaust ástand
Óttarr segir ástandið sem upp er komið vera algjörlega fordæmalaust.
„Ég hallast frekar að því að það sé tilefni til vantrausts,” segir hann. „Síðan hefur forsætisráðherra sjálfur kallað eftir því, sem er svolítið óvenjulegt, en sýnir að minnsta kosti að fólk er að velta þessu fyrir sér alls staðar.”
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, segir að nauðsynlegt sé að stilla saman strengi sína áður en þing komi saman á mánudag.
„Það hefur bæði verið umræða um vantrauststillögu og líka hvaða upplýsingar við viljum fá fram á þinginu um þetta mál,” segir hún. „Trúverðugleiki forsætisráðherra hefur skaðast mjög mikið og þau svör sem hann hefur gefið hingað til eru ekki fullnægjandi. Hann kaus að upplýsa þingið ekki um málið og það verður að ræða.”
„Stundum verður maður að hugsa stærra"
Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Pírata, segir að aðal umræðuefnið á fundinum á morgun verði Sigmundur Davíð og hans viðbrögð. Píratar hafi mikinn áhuga á að leggja fram vantrauststillögu.
„Þetta mál er allt mjög sérstakt. Færsla eiginkonu forsætisráðherra á Facebook, sem talar um Gróu á leiti, sem kemur svo í ljós að eru rannsóknarblaðamenn. Og svo að Sigmundur neiti að tala við RÚV og tali við Útvarp Sögu í staðinn. Þetta er allt svo ótrúlegt.”
Varðandi möguleika á kosningum á þessu ári segir Birgitta að það væri í raun ekki það ákjósanlegasta fyrir Pírata.
„Við erum ekki undir það búin. En stundum verður maður að hugsa stærra en um sjálfan sig.”