Kostnaðarþátttaka sjúklinga vegna heilbrigðisþjónustu hefur nær tvöfaldast undanfarna áratugi og töluverður fjöldi landsmanna neitar sér um nauðsynlega heilbrigðisþjónustu vegna kostnaðar ár hvert. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu Alþýðusambands Íslands (ASÍ) um kostnað almennings vegna læknis- og heilbrigðisþjónustu. Þeir tekjulægri neita sér frekar um læknisþjónustu en þeir tekjuhærri.
Samkvæmt ASÍ standa heimilin undir um 20 prósent af öllum heilbrigðisútgjöldum með beinni þátttöku í heilbrigðiskerfinu. Þá er bent á rannsókn Eurostat, þar sem fram kemur að mun stærri hluti fólks sem sækir sér ekki nauðsynlega heilbrigðisþjónustu vegna kostnaðar er hér á landi en í nágrannalöndunum. Um þrjú prósent Íslendinga segjast ekki hafa sótt sér nauðsynlega læknisþjónustu vegna kostnaðar, samanborið við 0,5 prósent á hinum Norðurlöndunum.
Krabbameinið kostaði hálfa milljón
Tekið er dæmi af konu sem greindist með illvígt krabbamein vorið 2013 og fór í langvinna lyfjameðferð í kjölfarið og hefur síðan þurft lyfjagjafir og rannsóknir að jafnaði þrisvar til fjórum sinnum í mánuði. Á árinu 2013 greiddi hún beint ríflega 142.000 krónur í komugjöld og rannsóknir. Á árinu 2014 námu bein útgjöld hennar vegna þessara þátta ríflega 154.000 en í september það ár þegar veikindaréttur hjá atvinnurekanda, réttindi í sjúkrasjóði og réttur til sjúkradagpeninga frá Sjúkratryggingum var fullnýttur fékk konan úrskurðaðan endurhæfingarlífeyri og fór þá að greiða samkvæmt gjaldskrá örorkulífeyrisþega. Á árinu 2015 voru greiðslur vegna komugjalda og rannsókna um 61.000 krónur. Að auki hefur konan haft lyfjakostnað sem nemur um 50.000 krónum á ári. Meðferð er ólokið. Heildarkostnaður sjúklingsins vegna veikinda sinna á þessu þriggja ára tímabili nemur því um 500.000 krónum.
Fimmtungur fer ekki til tannlæknis
„Það vekur líka athygli að mikill munur er á svörum eftir tekjum en meðal tekjulægsta hópsins hér á landi eru um 6% sem hafa ekki sótt sér læknisþjónustu vegna kostnaðar en 0,6% meðal þeirra tekjuhæstu,” segir í skýrslunni. „Þegar skoðaðar eru tölur um tannlæknaþjónustu er myndin enn verri en nærri fimmtungur tekjulægsta hópsins hér á landi segist ekki hafa sótt sér tannlæknaþjónustu vegna kostnaðar.”
Í skýrslunni er farið ítarlega yfir flestöll svið íslenskrar heilbrigðisþjónustu og kostnaðarþátttaka ólíkra samfélagshópa tiltekin í hverjum og einum. Þá eru einnig tekin raunveruleg dæmi af sjúklingum.
Sífellt meiri áhersla hefur verið lögð á að veita sjúklingum þjónustu án innlagnar á sjúkrahús og er göngudeildarþjónusta stór liður í því. Þjónusta við sjúklinga sem leggjast inn á sjúkrahús er að jafnaði gjaldfrjáls en sjúklingar sem sækja þjónustu á bráðamóttöku eða göngudeildir sjúkrahúsa greiða fyrir hana, er fram kemur í skýrslunni.
Ráðherra segir kerfið kolrangt
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra sagði á borgarafundi RÚV um heilbrigðismál í síðustu viku varðandi kostnaðarþátttöku sjúklinga að kerfið væri „kolrangt” og í því sé vitlaust gefið. Það sé flókið, ógegnsætt og ekkert heildaryfirlit sé til um hvar sjúklingar lendi í kerfinu. Kristján boðaði á málþinginu nýtt frumvarp sem myndi stokka upp í kerfinu og byggi á tillögum þverpólitískrar nefndar um Pétur Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokks, veitti forystu áður en hann lést.
Kristján sagði að frumvarpið myndi setja þak á greiðsluhlutdeild sjúklinga, sem myndi helst nýtast þeim sem mest þurfi að borga.