„Borgin mun leggja aukna áherslu á að greiða götur rafbílavæðingar á næstunni,“ segir Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, en betri innviðir fyrir almenna rafbílavæðingu er eitt af áhersluatriðunum í aðgerðaráætlun í loftslagsmálum sem er í undirbúningi hjá Reykjavíkurborg. „Borgin vann aðgerðaráætlun fyrir nokkrum misserum og Orkuveitan jafnframt. Nú er hins vegar margt sem bendir til þess að þróunin geti orðið hraðari og jákvæðari í þessa átt en áður hefur verið talið og því full ástæða til að slá í klárinn,“ segir Dagur.
Mikil vakning hefur átt sér stað í bílaheiminum á undanförnum árum, þegar kemur að rafbílum og tækniþróun hefur einnig verið ör. Eitt stærsta augnablik í tiltölulega stuttri sögu rafbíla í heiminum var í gær, þegar Elon Musk, stofnandi og forstjóri Tesla Motors, kynnti í fyrsta skipti opinberlega nýja tegund frá Tesla, Model 3, sem kemur á götuna á næsta ári. Bíllinn verður markaðssettur fyrir almenning og mun kosta frá 35 þúsund Bandaríkjadölum, eða sem nemur 4,5 milljónum, nýr úr kassanum. „Ég fullyrði að þetta verður besti bíll sem hægt verður að kaupa fyrir þennan pening í heiminum,“ sagði Musk meðal annars þegar hann kynnti bílinn.
Bíllinn mun að lágmarki komast um 300 kílómetra á einni rafmagnshleðslu, en auk þess verður mögulegt að fá fjölmarga aukahluti við bílinn og einnig meiri snerpu í akstri. Model 3 verður þannig útbúinn að engin undirtegund mun verða lengur að ná 100 kílómetra hraða en sex sekúndur.
Model 3 orders at 180,000 in 24 hours. Selling price w avg option mix prob $42k, so ~$7.5B in a day. Future of electric cars looking bright!
— Elon Musk (@elonmusk) April 1, 2016
Í dag hefur Tesla þegar tekið á móti forpöntunum á bílnum fyrir 7,5 milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur um þúsund milljörðum króna. Á innan við sólarhring frá því bíllinn var kynntur hafa 180 þúsund eintök verið pöntuð.
Musk lét hafa eftir sér á kynningunni að það væri stórt og mikið mál fyrir allan heiminn að rafbílavæðing næði að ganga fram hraðar, og það væri meginmarkmiðið með starfsemi Teslu. Að búa til tæknilega fullkominn bíl, sem gengi fyrir rafmagni, og væri að öllu leyti samkeppnishæfur við bestu bíla sem ganga fyrir olíu - og menga því meira.
Eitt af því sem sérstaklega hefur verið horft til, að muni stjórna því hversu hröð rafbílavæðing á heimsvísu getur orðið, er uppbygging landa á innviðum fyrir hleðslur rafbíla. Sérstaklega eru það borgarsvæði sem munu þurfa að byggja upp slíka innviði.
Dagur segir að Reykjavíkurborg sé meðvituð um mikilvægi þessa málaflokks, og uppbygging fyrir rafbílavæðingu sé í góðu samræmi við stefnu borgarinnar í umhverfs- og skipulagsmálum. Tillögur um þessi mál muni að líkindum liggja fyrir síðar á árinu.