Blaðamaður og ljósmyndari frá norska dagblaðinu Aftenposten voru stöðvaðir af lögreglu fyrir utan heimili Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra í dag þegar þeir reyndu að ná tali af forsætisráðherra. Frá þessu er greint í umfjöllun Aftenposten um Sigmund Davíð og félagið Wintris.
Aftenposten greinir frá því að blaðamaður og ljósmyndari hafi farið heim til Sigmundar Davíðs í morgun. Sigmundur Davíð og Anna Sigurlaug Pálsdóttir, eiginkona hans, hafi komið keyrandi að húsinu. Anna Sigurlaug er þar sögð hafa komið að máli við blaðamanninn, verið kurteis en ekki viljað koma í viðtal. Á meðan hafi Sigmundur Davíð verið inni í bíl þeirra, og talað í símann.
Nokkrum mínútum síðar hafi Anna Sigurlaug komið út aftur og blaðamaður og ljósmyndari hafi verið að undirbúa brottför þegar lögreglubíll kom keyrandi. Tveir lögreglumenn hafi krafist þess að sjá vegabréf og pressupassa þeirra. Eftir stutt samtal við starfsmenn Aftenposten fóru lögreglumennirnir og ræddu við Sigmund Davíð, sem fór við það inn til sín.
Í stórum fjölmiðlum um allan heim
Umfjöllun um aflandsfélög íslenskra stjórnmálamanna, og þá sérstaklega Sigmund Davíð, er áberandi í stórum fjölmiðlum víða um heim. Líkt og Kjarninn greindi frá fyrr í dag er gríðarmikil umfjöllun í þýska stórblaðinu Sueddeutsche Zeitung.
Í danska ríkisútvarpinu er fjallað um Sigmund Davíð, Vladimír Pútín Rússlandsforseta og Lionel Messi knattspyrnumann í sömu fréttinni. Sænska ríkissjónvarpið fjallar ítarlega um Wintris, Sigmund Davíð og það hvernig hann varð forsætisráðherra vegna afstöðu sinna til kröfuhafa meðal annars.
Margir fjölmiðlar hafa einnig gert viðtalið við Sigmund Davíð, sem sænska ríkissjónvarpið tók ásamt Reykjavík Media, að umtalsefni. SVT greinir frá þessu, sem og Guardian, sem greinir frá því á forsíðu að hann hafi gengið á dyr og yfirgefið viðtalið. Einnig er fjallað um það í Guardian að Sigmundur Davíð muni nú þurfa að takast á við kröfuna um að boðað verði til kosninga og hann segi af sér.
Breska ríkisútvarpið BBC fjallar ítarlega um Sigmund Davíð í sinni umfjöllun um Panamaskjölin og það gerir franska stórblaðið Le Monde líka. Þá er líka fjallað um málefni hans í indverskum fjölmiðlum.
#PanamaPapers reveal how Iceland's PM hid a secret offshore companyhttps://t.co/kB0TZA0d4C pic.twitter.com/Z26hKf9KkB
— BBC Breaking News (@BBCBreaking) April 3, 2016